Narita airport. Vægi sjálfshóls og áhrif á bóksölu.

Á flugvellinum í Narita í Tokyo er tekið vel á móti manni. Japanir eru afar sómakærir og vilja standa sig vel í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Það er eins og allir vandi sig sérstaklega mikið. Það er ekkert sjúsk hér eins og maður sér greinilega á umgengninni hvaðanæva í Tokyo; hvergi er rusl að sjá. Ég er hrifinn af Japönum, þeir virðast svo heiðvirðir, auðmjúkir og hjálpfúsir.

Flugvélin til Danmerkur fer í loftið eftir rúman klukkutíma og ég sit í biðsalnum ásamt öðrum samferðarmönnum. Enginn segir neitt, fólk grúfir sig niður í sjálft sig eða símana sína og suðið í loftræstikerfinu er eins og teppi yfir okkur sem bíðum eftir að komast yfir hafið með flugvél. Ég hef búið mig undir ferðalagið; hlaðið niður kvikmyndinni ROMA og Johan Harstads-bókin er á sínum stað i fullhlöðnum iPadinum mínum. Flugið er langt, meira en ellefu klukkutímar svo ég hyggst ná að lesa þær síður í bókinni sem ég hafði sett á áætlun hér í Tokyo en ekki náð að lesa; ég hef vanrækt Harstad hér í ferðinni.

Í morgun beið mín í tölvupósti, metsölulisti bóka á Íslandi. Kannski er ekki margt sem kemur mér á óvart en ég fór að hugsa þegar ég leit yfir listann, að margir höfundar hlytu að vera óánægðir með sölu bóka sinna. Ég hafði búist við meiri sölu bóka Þórdísar Gísladóttur, Eiríks Arnar, Eiríks Guðmundssonar, Ármanns Jakobssonar … Eiríkur Örn og Eiríkur Guðmundsson fóru víst hamförum á facebook í kynningu á bókum sínum, svo er mér sagt, og ég held satt að segja að það geti hafa unnið gegn áhuga fólks á bókunum. Facebook er sjálfshólsstaður og sjálfshól og sjálfssýning er kannski ekki leið til að vekja athygli eða kveikja áhuga á verkum sínum. Hjá mér kyndir slík sýning ekki undir áhuga.

Bók Auðar Övu Ólafsdóttur, Ungfrú Ísland virðist hins vegar hafa selst frábærlega vel og ég held að markaðssetning þeirrar bókar hafi heppnast eins og best verður á kosið. Auður er nógu cool til að nota ekki félagsmiðlana til að lyfta bók sinni upp – eða kannski er hún bara nógu klár til að sjá og skilja að facebook/instagram eru svo óáreiðanlegir miðlar að enginn tekur mark á því hóli sem birtist þar. Hvað margir hlupu út í búð þegar að Hallgrímur Helgason sagði að ljóðabók Bubba væri meistaraverk? Eða hvað hlupu margir út í búð og keyptu bók Hallgríms vegna þess að Bubbi endurgalt hól Hallgríms og sagði að bókin hans væri meistaraverk? Ég er ekki að segja að ummæli þeirra séu ekki beint frá hjartarótum en held bara að Facebook-færsla hefi ekkert vægi.

Ég gleymdi kannski að nefna bók Linn Ullmann, Hin órólegu sem bók ársins (og nú hlaupa allir út í búð). Ég hélt kannski að ég hefði lesið hana árið 2017. En það skiptir ekki máli. Hin órólegu er svo sannarlega bæði bók ársins 2017 og 2018. Ég vona einlæglega að sú bók hafi selst á Íslandi og að enn sé fjárhagslega mögulegt að gefa út skáldsögur í hæsta gæðaflokki. Ég varð auðvitað fyrir vonbrigðum með söluna á Keigo Higashino, Hinn grunaði herra X (allir út í búð) sem ég er handviss um að sé ein besta glæpasaga sem hefur komið út á íslensku, ekki bara árið 2018, heldur í háa herrans tíð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.