Espergærde. Eldmóður, brennandi hjarta og mörg járn í eldinum.

Það er nýtt ár. Það finn ég þegar ég sest hér á stólinn minn á skrifstofunni. Í mér er nýárseftirvænting; þessa tilfinningu fæ ég alltaf um áramót eins og allt sé mögulegt og ný tækifæri bíða við næsta horn. Mig dreymir um ný uppbyggjandi verkefni. Ég þrífst best þegar ég hef mörg járn í eldinum og hjarta mitt brennur af eldmóði (sko, þarna náði ég að nefna eld þrisvar sinnum í einni setningu, yo!)

Ég er þreyttur eftir tennisleik morgunsins á móti Thomasi. Minn fyrsti leikur í sex mánuði og ég tapaði eins og ég hafði gert ráð fyrir en spilaði ekki eins hörmulega og búast hefði mátt við eftir þetta langa hlé. Og ökklinn var ekki til stórra vandræða en ég er haltur núna, ökklinn bólginn og ég skakklappaðist upp á skrifstofu í morgun eftir kappleikinn.

Ég sá kvikmyndina ROMA sem ég hafði hlakkað svo mikið til að sjá. Ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með kvikmyndina. Myndin náði alls ekki að’ heilla mig, og ég var hvorki hrifinn af sögunni, leiknum, kvikmyndatökunni né tempóinu í kvikmyndinni. Hver sagði í mín eyru að hún væri svo rosalega góð? Hver sem það var þá get ég sagt það við viðkomandi að við höfum ekki sama smekk á kvikmyndum.

Á leið til skrifstofu. Ég er einn á ferð, en sólin skín á hnakkann á mér.

ps. Ég hafði rétt jafnað mig á tímamismuninum milli Danmerkur og Japans og var farinn að sofa fram undir morgun í Japan en nú er ég kominn til Danmerkur og tímamismunurinn er greinlega 8 klukkustundir og kroppurinn á mér vill vera vakandi þegar hann á að sofa samkvæmt úrinu. Ég vaknaði klukkan eitt í nótt eftir tæpan tveggja stunda svefn og náði ekki að sofna aftur. En mig dreymdi ský og hrísgrjón.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.