Á göngu minni eftir Lindevej, sem liggur í boga upp á Jernbaneallé, fór ég að velta fyrir mér hugtakinu langrækni. Ég held satt að segja að ég sé langrækinn, ég á það til að hafa horn í síðu einhvers löngu eftir að sá hinn sami hefur gert eitthvað (að mínu mati) á minn hlut. Það vill svo til að mér getur verið í nöp við einhvern fyrir eitthvað sem hefur gerst fyrir langalöngu, og ég get borið kala og haft óbeit og verið illa við einhvern mörgum árum eftir að óheppileg samskipti hafa átt sér stað. Þetta hugsaði ég á göngu minni. Ég komast að þeirri niðurstöðu að sennilega væri þetta fyrir mennina sálfræðilega nauðsynlegt til að lifa af – að minnsta kosti fyrir suma.
Ég hafði gælt við þá hugmynd að ég gæti kannski fengið að vera áfram hérna á lestarstöðinni, fengið að sitja inn í hornherbergi og borgað lága leigu gegn því að haf eins dags uppsagnarfrest. Ég hafði því í gær samband við DSB, danska lestarfélagið sem á húsið sem hýsir skrifstofuna og spurði auðmjúkur hvort þessi möguleiki væri fyrir hendi. Í morgun fékk ég svar: nei, því miður, ekki mögulegt. Ég verð að vera kominn út þann 31.1.19. Ég er leiður yfir því.