Espergærde. Fundur minn með Marguerite

Maður deyr víst þrisvar sinnum; þegar hjartað hættir að slá, þegar líkaminn er látinn síga niður í moldina og síðast en ekki síst þegar allir eru hættir að nefna nafn manns. Svona byrjaði ég daginn; á þessari furðulegu hugsun um dauðann. Kannski fæddist þessi hugsun þegar ég kom niður í eldhúsið, mitt um nótt því ég get enn ekki sofið, og rak augun í tvö staup og skrautflösku með Gammel Dansk sem skinu í myrkrinu. Þessa flösku fékk ég frá mömmu fyrir mörgum árum og hún minnir mig alltaf á hana. Á aðventu skála ég daglega við Sus í einu staupi af Gammel Dansk í minningu mömmu. Svona held ég enn nafni hennar á lofti, held henni á lífi í huganum á mér.

Gammel Dansk-flaskan

Ætli hugtakið framtíð sé dautt? Einu sinni var framtíð eitthvað sem bar með sér birtu, gleði, tilhlökkun. Paradís framundan. Allt stefndi til hins betra, betri fjárráð, meiri tími, léttara líf. En nú stendur maður á stað, árið 2019, þar sem framtíðin er í besta falli biðstaða en kannski í hugum sumra ógn; við bíðum eftir að kafna í CO2, við bíðum eftir næstu efnahagslegu katastrófu, hafið færi okkur í kaf, næstu náttúruhamförum, að gervigreindin taki af okkur völdin og geri okkur að hlægilegum þrælum … Þetta skrifa ég. Ég tala við sjálfan mig.

„Maður getur lært að skrifa, maður getur meira að segja lært að skrifa ansi vel og fallega en það bjargar manni ekki frá neinu.“ Þetta sagði Marguerite Duras einu sinni við mig þegar við hittumst á hornkaffihúsi á mótum Rue de Béarn og Rue des Minemes. Við sátum við lítið hringborð sem stóð mitt á gólfi kaffistaðarins, úti var kalt. Marguerite talaði látlaust og inni í henni var þetta glóandi kjarnorkuver; allt var á suðupunkti. Við sátum andspænis hvort öðru – hún reykti sígarettu – og ég hallaði mér ofurlítið fram en hún hékk hálfvegis á stólnum, í stellingu sem átti sennilega að tjá afslöppun. En það var ljós í augum hennar, glóð sem var undirstrikuð af dökkum, áberandi skuggum undir augunum. Og hendurnar voru aldrei kyrrar, þær sveifluðust eins og hreyflar í kringum hana þegar hún talaði. Ég hafði sett græna frakkann minn á stólbakið og mér leið undarlega í bláu ullarpeysunni sem ég klæddist utan yfir skyrtuna. En hún gerði engar athugasemdir við klæðnað minn, allt hennar tal snerist um það sem gerðist inni í henni.

Ég segi frá þessu hér því ég man alltaf eftir deginum sem Marguerite dó. Það var á afmælisdegi pabba míns, daginn sem hann varð 53 ára gamall. Pabbi kom gangandi niður tröppurnar í Álftamýrinni, hann horfði hugsandi niður fyrir sig og tók ekki eftir því að ég fylgdist með honum. Það beið okkar kaffiborð með döðlukökum og í útvarpinu las Jón Múli Árnason fjögurfréttir: „Franska skáldkonan, Marguerite Duras, lést á heimili sínu í morgun eftir langvarandi veikindi, 83 ára að aldri …“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.