Espergærde. Að lesa á göngu.

Ég er seinn til að skrifa dagbók dagsins í dag. Það er sunnudagur og mér tókst að sofa til klukkan korter yfir sex. Dagurinn byrjaði hægt. Ég hellti mér upp á kaffi, bjó mér til hafragraut, fór út í póstkassa til að ná í dagblað dagsins. Sat lengi yfir dagblaðalestri og morgunmat; kaffi og hafragraut. Ég hafði setið lengi yfir dagblöðum dagsins og öðru sem vakti áhuga minn, svo lengi að allt í einu var næstum komið hádegi. Ég stóð því upp og setti nokkur egg á pönnuna og útbjó eggjahræru fyrir hádegismat sem við borðuðum áður en við Sus fórum út að ganga. Við göngum yfirleitt sama hringinn, ég veit ekki afhverju, við ræðum eiginlega ekki hvert við skulum ganga, við örkum bara af stað og við endum með því að ganga sama hringinn meðfram ökrunum og niður að sjó. Þetta er ekki sérlega löng leið, um það bil sex kílómetrar og það tekur okkur 50 mínútur að ná hringinn á enda. Ég ákvað að halda áfram göngunni þótt við værum komin hringinn. Ég hafði byrjað að hlusta á Sandárbók Gyrðis Elíassonar í gær á göngunni og fannst tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi; hreyfa mig og lesa. Ég gekk því aftur af stað, í þetta sinn með heyrnartól í eyrunum. Til þess að geta hlustað almennilega þarf maður að halda sig frá bílaumferðinni því niðurinn frá bíldekkjum og bílvélum yfirgnæfir rödd lesarans. Ég stefndi því á nýjar slóðir, meðfram ökrum og afar fáfarinn veg inn í skóginn. Þennan veg hef ég aldrei gengið. Við enda vegarins kom ég að vínekru, ég sá ekki betur en vínræktin og tilheyrandi hús væru til sölu. Kannski ætti ég að hefja vínrækt í Danmörku. Hmm. Nei.
Vínekra til sölu
Ég mætti aðeins einum bíl á nærri því klukkutíma langri göngu minni eftir mjóum vegi sem liggur inni í skógi. Þessi gönguleið átti mjög vel við lestur Gyrðis, þar sem tré og gönguferðir úti í skógi og á afskekktum stöðum gegna veigamiklu hlutverk. Ég kunni vel við lestur skáldsins; rödd hans og áherslur hæfa mjög efni bókarinnar. Lesturinn er hálftregafullur og röddin er nánast sorgmædd. Bókin fannst mér fyrirtak, samt fór aðeins í taugarnar á mér einhver óþarfa þótti sumstaðar í textanum. Nú er ég búinn að downloda bók Auðar Jónsdóttur Ósjálfrátt. Ganga og lestur. Ég er ánægður með hljóðbækur og hef lengi verið. Ég man þegar ég átti amerískan bíl, mjög mjúkan og svífandi bíl, þá hlustaði ég á kasettur með bók Guðmundar Andra Thorssonar, Íslandsförin.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.