Espergærde. Enginn til að stimpla

Morguninn hefur farið í eitthvað furðulegt stúss. Ég hef talað við skrifstofu sveitafélagsins, Helsingør kommune, ég hef reynt að ná sambandi við bankann, ég hef reynt að ná sambandi við byggingarverktakann minn og ég hef gengið niður á kirkjuskrifstofuna hérna í bænum. Allt hefur verið árangurslítið. Ég hef verið að reyna að bjarga Sölva um einhverja pappíra sem þarf stimpil kommúnunnar en þeir vilja ekki stimpla. Ég þurfti að reyna að ná sambandi við prestinn hér í bænum til að fá hann til að stimpla fæðingarvottorðið hans Núma.

Númi vill nefnilega gerast íslenskur ríkisborgari og fá þar með tvöfalt ríkisfang. En fæðingarvottorðið er einn af þeim pappírum sem þarf að leggja fram og það er kirkjan hér í bænum sem sér um slíkt.

Ég sá á heimasíðunni að kirkjan átti að opna klukkan 10:00 og því rölti ég af stað rétt fyrir tíu. Ég er búinn að setja bók Auðar Jónsdóttur Ósjálfrátt inn á símann minn og því var fínt að ganga með lesturinn í eyrunum. Tvær flugur í einu höggi. Það er milt veður í Danmörku þessa dagana, logn og fremur hlýtt. Sem betur fer er bílaumferðin ekki mikil á veginum til kirkjunnar og því gat ég heyrt Auði lesa sögu sína án þess að vera truflaður af háværum bílanið. Ég hef ekki náð langt inn í söguna svo ég get lítið sagt um hvernig mér líst á hana. En þegar ég kom að kirkjunni voru dyrnar lokaðar og enginn til að stimpla. Hmm.

Þótt ég hafi gaman að ganga með hljóðbækur er það bókin hans Johans Harstad sem heldur mér gangandi. Ég held áfram að lesa kafla á dag og mjakast hægt og rólega í gegnum þennan mikla doðrant. Johan líkist ekki neinu sem ég hef lesið áður, enginn íslenskur rithöfundur skrifar á sama hátt og Norðmaðurinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.