Espergærde. Strandaglópurinn

Þessa dagana hef ég átt erindi við kirkjuna hérna í bænum í tvígang. Mig vantar fæðingarvottorð. Tvisvar sinnum hef ég þurft að ganga niður að kirkjunni, sem stendur við Strandvejen, til að reyna að ná sambandi við starfsmann kirkjunnar. Í gær kom ég að lokuðum dyrum og fékk lítið út úr erindi mínu annað en upplýsingar um gjaldskrá kirkjugarðsins sem hangir á töflu fyrir utan skrifstofu kirkjunnar. Ég tók ekki almennilega eftir hvað eitt leiði kostar á ári en ég tók eftir að hægt er að greiða fyrir leiguna bæði með VISA og Mastercard. Bankinn minn hefur úthlutað mér báðum þessum tegundum greiðslukorta svo ég ætti óhindrað að geta greitt leigugjaldið.

Í dag lagði ég aftur af stað í átt að kirkjunni, enn fótgangandi. Gönguferðin tekur um það bil tólf mínútur frá heimili mínu. Ég gekk niður á Strandvejen og fylgi honum í norðurátt með bílumferðina á hægri hönd – enn lengra, handan vegarins og handan húsanna við Strandvejen, speglaðist sólin í lygnum sjónum – þar til ég kom að kirkjugarðinum. Þar opnaði ég garðshliðið, sem er svart eins og sorgin, og gekk í átt til kirkjunnar eftir malarstíg á milli leiðanna. Þetta er lítill, fallegur kirkjugarður og vel hirtur.

Á göngu minni í gegnum garðinn varð mér starsýnt á leiði þar sem loguðu kertaljós í kertalömpum. Á leiðinu voru fersk blóm og nýr kross. Þarna hvílir ung kona fædd sama ár og ég, árið sem Surtsey fæddist. Eiginlega brá mér svolítið við þessa sýn og hugsunin um að verða grafinn í þessum bæjarkirkjugarði, eins og jafnaldri minn, gerði mig hálfdapran. Að vera grafinn í útlenska mold, er það svo slæmt? spurði ég sjálfan mig. Er það eitthvað verra en að vera grafinn á Íslandi? Sennilega skiptir það engu máli. Mikilvægara er að einhver nennir að nefna nafn mitt eftir að hjarta mitt hættir að slá.

En ég fékk lokið erindum mínum við kirkjuna. Ég fékk fæðingarvottorð þótt að djákninn væri eitthvað tortrygginn á áform mín í upphafi. En svo var mér boðið sæti og eftir stutt spjall voru engin takmörk fyrir því hve langt einn djákni í kirkju í litlu bæjarfélagi á Norður-Sjálandi vildi ganga fyrir íslenskan strandaglóp.

Ég var nýkominn aftur heim eftir þessa stuttu gönguför niður að kirkjunni – að vísu sé ég núna eftir að hafa ekki tekið mynd af sjónum, Eyrarsundinu, því þar var stillan alger og hafflöturinn spegilsléttur – þegar vinur minn póstmaðurinn hringdi á bjöllunni. (Ég vinn heima í dag og J.S. Bach sér um tónlistina.) Hann þarf í raun ekki að hringja á dyrabjöllunni, hér er póstkassi, en honum finnst gott að spjalla stutta stund. Í þetta sinn færði hann mér pakka með rauðri slaufu. „Það eru enn jólin hjá vinum þínum á Íslandi,“ sagði hann um leið og hann benti á rauðu slaufuna. Ég hafði ekkert að færa póstmanninum í dag. Ég er búinn að borða allan harðfiskinn sem Jón Kalman kom með til mín um daginn.

Innihald póstpakkans kom mér sannarlega á óvart; í umslaginu lágu, í fallegri öskju, þrír íslenskir fuglar, tálgaðir í tré og málaðir réttum litum. Ég var sannarlega glaður yfir þessari fallegu og óvæntu sendingu frá fólki sem ég þekki ekki svo vel, en við höfðum lánað húsið okkar á Ítalíu í sumar. Þetta var þeirra þakklætisvottur.

Íslenskir fuglar, mótaðir í tré.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.