Espergærde. Jeff Bezos og Houllebecq

Manuel Valls (sem einu sinni var innanríkisráðherra Frakklands og er kannski enn, ég er ekki inni í ráðherralistanum) sagði einu sinni eftir að Michel Houellebecq hafði gefið út skáldsögu (Undirgefni) sem olli miklum usla í Frakklandi: „Frakkland er ekki Michel Houellebecq (…) Frakkland er ekki hatur, ótti og skortur á umburðarlyndi.“ Uslinn sem skáldið olli náði aldrei út fyrir Frakkland. Því annars staðar í heiminum, þar sem mesta lagi 0,01% landsmanna les skáldsögur, yppti fólk bara góðlátlega öxlum og kommenteraði í mesta lagi hvað Michel er ófríður.

Ég nefni þetta hér vegna þess að ég heyrði að ný skáldsaga eftir Houellebeck sé komin út í Frakklandi og ég hlakka til að lesa bókina. Ég les ekki frönsku og verð því að bíða eftir að verkið verði þýtt á ensku eða dönsku. Eða á ég að gera ráð fyrir að Houellebecq komi út á íslensku? Maður veit aldrei. En ég sá að Lestin hafði fyrir nokkru auglýst að það yrði fjallað um skáldið í þættinum. Ég þarf að finna þann útvarpsþátt á podcastinu.

Ég hef lengi verið aðdáandi Jeff Bezos, stofnanda Amazon vefrisans. Ég þekki manninn ekki persónulega en ég fékk meðal annars áhuga á honum þegar hann sagði frá því í viðtali að hann hafi dvalið hvert sumar hjá afa sínum, eða frá því hann var sex ára þar til hann varð sextán ára. Afinn bjó upp í sveit á mjög afskekktum sveitabæ og var svo langt frá öllu að hann var gersamlega upp á sjálfan sig kominn. Ef upp komu vandamál á sveitabúinu þá var það hann sem varð að bjarga því. Öll tæki og tól smíðaði hann sjálfur og þarna dvaldi Jeff öll sumur og hann segir að þessi dvöl hjá afa sínum sé lykill að velgengni hans. Að vera úrræðagóður og bjarga sér sjálfur.

Sjálfur er ég langt á eftir áætlun. Ég tók upp á því í morgun að ganga út í kjötbúð og það eru sjö kílómetra ganga. Auðvitað var það vitleysa að nota svo mikinn tíma í að ná í kjöt fyrir kvöldmatinn þegar ég hafði áætlað að gera annað. En svo komu mér í hug orð Jeff Bezos að það væri tímasóun að planleggja lengra fram í tímann en 20 mínútur. Fínt, hugsaði ég og arkaði af stað, með sögu Auðar Jónsdóttur, Ósjálfrátt í eyrunum. Ég get ekki neitað því að mér þótti skemmtilegra að hlusta á Gyrði lesa Sandárbókina en hana kláraði ég í síðustu viku. Bók Auðar er ekki leiðinleg. En bæði þykir mér söguveröld Gyrðis áhugaverðari, textinn safaríkari og svo les hann betur en Auður og það hefur mikið að segja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.