Dagarnir líkjast hver öðrum; það er laugardagur og ég sit við skrifborð og skrifa dagbók dagsins. Ég er búinn að borða morgunmat (hafragraut með smá ólífuolíuslettu), ég er búinn að lesa dagblaðið (því miður fann ég ekkert í dagblaði dagsins sem heillaði mig) ég er búinn að lesa kaflann minn í bók Johan Harstads (ég notaði svolítinn tíma í að kíkja á textann hans til að reyna að skilja hvað það væri sem gerði textann jafn lifandi og kraftmikinn og raun er viti). Þessi röð atvika á laugardagsmorgni er ekki óþekkt í lífi mínu og ef ég þekki mig rétt ákveð ég, þegar ég hef skrifað dagbók dagsins að standa á fætur, kíkja út um gluggann og segja upphátt til þeirra sem heyra vilja: „Ætli ég fái mér ekki göngutúr út á akrana. Allir eru velkomnir með.“ Ég býst ekki við að ég fái nein sérstaklega rífandi viðbrögð við þessum vangaveltum mínum en ég reikna þó með að Sus segist líka vilja ganga meðfram ökrunum. Ef hún er upptekin við annað geng ég einn og hlusta á hljóðbók á göngunni næstu einn eða tvo klukkutíma. Það er logn svo það er auðveldara að hlusta á hljóðbók en í roki.
Þessa dagana hef ég bók Auðar Jónsdóttur, Ósjálfrátt í eyrunum Ég ætla ekki að vera leiðinlegur með því að kvarta undan bókinni, en ég segi það upphátt og í hljóði, að hvorki skrif Auðar né sagan í bókinni Ósjálfrátt heilla mig (en hafa örugglega heillað þúsundir annarra sem hafa lesið eða hlustað á söguna). Þetta er satt að segja ekki skáldskapur sem á sérlega vel við mig. Mér finnst of mikið volæði, of mikill vesældómur, og það hefur mér aldrei þótt áhugavert viðfangsefni. Sérstaklega ef slíkar tilfinningar eða volæðið sjálft sé þungamiðja sögu. Að slappleikinn sé það áhugaverða.
Þetta er nú bara mín skoðun og er örugglega á skjön við skoðanir flestra annarra.
Einu sinni stundaði ég nám í bókmenntafræði. Það var ekki með öllu hjartanu. Ég hef lært það á leið minni í gegnum lífið að eina leiðin til að ná árangri í einhverju, ná langt eins og það er kallað, er að hafa hjartað með, brenna af áhuga og leggja allt í sölurnar. Þannig var það ekki með bókmenntafræðinám mitt. En ég grínaðist með það í eigin huga að þegar og ef ég skrifaði BA-ritgerð í bókmenntum skyldi ritgerðin fjalla um kakókvöld í íslenskum bókmenntum. Undirtitil ritgerðarinnar yrði: Frá Vigdísi Grímsdóttur til Eðvarðs Ingólfssonar. Ég skrifaði aldrei þessa ritgerð en nú þegar ég hlusta á bók Auðar hefur ég fengið annað efni sem ég gæti skrifað um í væntanlegri BA ritgerð minni.