Í gær fékk ég senda stutta orðsendingu frá einum af félögum mínum á Íslandi með sendingunni lét hann fylgja úrklippu úr íslensku dagblaði með mynd af Einar Kárasyni þar sem hann stendur frekar illa klæddur í hryssingslegri og napurlegri umgjörð. Ég sé að það hefur snjóað á Íslandi, eða alla vega í Reykjavík, og Einar hefur tekið sér stöðu á klakabunka með hendur í vösum og lætur hvassa norðanáttina feykja hári sínu aftur á meðan hann bíður þess að ljósmyndarinn smelli af. Hann hefur gránað, hann Einar, hugsaði ég þegar ég virti fyrir mér myndina. Undir myndinni er haft eftir Einari: „Ég á ekki orð. Hvaða djöfulsins rugl er þetta?“
En fréttin fjallar um úthlutun listamannalauna og Einar var ekki á meðal þeirra sem hlutu náð fyrir augum þeirrar þriggja manna nefndarinnar, sem ákveður hverjir eru þess verðir að verða launaðir af ríkinu til að sinna ritstörfum. Og Einar er fjúkandi illur, það getur maður líka séð á myndinni. Ég veit ekki hvað veldur því að jafn þekktur og reyndur rithöfundur þykir ekki þess verður að fá rithöfundalaun. Kannski var umsóknin hans ekki nógu góð? Ég veit ekki. En það eru fleiri en Einar sem eru óánægðir með að fá ekki bita af kökunni eða ekki nógu veglega sneið. Það las ég líka í fréttinni; Þórunn Valdimarsdóttir, Halldór DNA og Valur Gunnarsson mynda þann grátkór.
Ég tók líka eftir að formaður nefndarinnar sem sér um úthlutun listamannalauna er leikkonan Bryndís Loftsdóttir. Hana þekkti ég sem verslunarstjóra Eymundsson verslananna. (Það er margt sem ég lærði af þessari úrklippu.) Síðast þegar við Bryndís áttum samskipti reyndi ég að semja við hana um útstillingu á bókum í bókabúðinni í Austurstræti og einhver afsláttarkjör. Ég man ekki betur en hún hafi staðið sig vel í búðarstörfunum. En núna stendur hún ekki lengur vaktina á verslunargólfinu heldur er allt í einu orðin áhrifakona innan leikhúss og bókmennta. „Hans Blær er mesta samtímaverkið,“ (og átti þá við leikverkið) hef ég séð haft eftir þessum aðalleikara íslensks listalífs. Að Bryndís yrði allt í öllu á sviði íslenskrar menningarstarfsemi hafði ég nú ekki búist við, en það er margt sem breytist meðan maður bregður sér frá. Yo!