Espergærde. Notagildi kærleika

Ég vakti lengi yfir netflix-seríu í gær, langt fram á nótt. Það geri ég annars nánast aldrei. Ég hafði lesið um að Netflix hefði framleitt sjónvarpsþáttaröð um bæinn og knattspyrnufélagið Sunderland: Sunderland ’til I die. Hér í Danmörku hefur þáttaröðin fengið nokkuð gott umtal og það vakti athygli mína. Ég hef sjaldan þolinmæði til að horfa á sjónvarpsþáttaraðir en nú hélt Sunderland áhuga mínum. Þetta langa hangs yfir sjónvarpsþáttaröð gerði það að verkum að ég var hundþreyttur þegar ég vaknaði í morgun klukkan 6:25.

Hér á mínum heimahögum er kalt, frost, hvass vindur stendur af hafi og ofan af himnum fellur hagl. Yfir bænum grúfir óvenjulega þungt myrkur. Ég var þó á leið til vinnu rétt fyrir átta og hafði mannað mig til að ganga í gegnum haglélið á minni korterslöngu göngu upp á skrifstofu þegar Sus stakk upp á að ég gengi með henni göngutúr út til Humlebæk. Ekki neita ég konu minni um það svo við örkuðum fyrst klukkutíma langan göngutúr áður en ég lagði af stað til vinnu.

Á göngunni fór ég eins og oft áður að hugsa um fyrirbæri eins og kærleika og fyrirgefningu og hvaða gildi þessi fyrirbæri höfðu bara í sjálfu sér án þess að velta fyrir sér „hvað maður fær út úr því“. Maður getur þakkað kristindómnum fyrir að við höfum tungumál fyrir þessar tilfinningar og líka að við höfum sans fyrir gildi þessara fyrirbæra sem standa nokkuð afsíðis í hinum tæknisinnaða nútímaheimi þar sem flest er metið út frá notagildi.

En hvað með það, ég er byrjaður að mynda húsgögn hér á skrifstofunni sem ég set til sölu. Ég hef ekki pláss til að geyma skrifsstofustóla, skrifborð og hillur. Því verður allt selt. Mitt gamla líf verður sett á uppboð í Den Blå Avis.

Og ég er búinn að panta mér flugfar til Íslands þann 25. janúar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.