Espergærde. Af hræðilegu fólki

Ég er nískur á tímann minn. Tímanískan kemur með árunum. Einn af félögum mínum hefur ítrekað bent mér á að horfa á nýja, sænska heimildarmynd um hina sænsku nóbelsakademíu. Ég hef hummað það fram af mér en í gær ákvað ég að verða við óskum mannsins. Ég fann heimildarmyndina og setti mig niður seint um kvöld og horfði. Sennilega hefði ég ekki átt að gera það, því í nótt svaf ég órólega vegna hálfgerðs hugaræsings og hugsanir um sænska listamenn ásóttu mig. Allir þessir listamenn sem talað var við í þættinum í gær, og tengjast á einn eða annan hátt hinni sænsku akademíu, voru gífurlega ógeðfelldir. Og í mínum huga snýst þetta mál – og það er niðurstaða mín eftir að hafa horft á heimildarmyndina – algjörlega og eingöngu um völd. Það er einber valdasýki sem stýrir þessu máli. Þarna rekast á nokkrir heimar sem hver hefur sína identitetspolitík að verja og það er ekki fallegt að horfa upp á þetta sjálfsupptekna fólk ota sínum tota og gleyma öllu því fagra sem það ætti að berjast fyrir. Hræðilegt fólk.

(Það fyndnasta eða eitt af því sorglegasta í þessum þætti (það voru mörg sorgleg atvik) var viðtal við Ebbu Witt-Brattström, fyrrum eiginkonu Horace Engdal (sem er einn af aðal-akademíumeðlimunum). Hún hefur sína pólitík að verja, en hún er spurð um notkun hennar á einhverri límósíu í eigu akademíunnar sem hún og fyrrum maður hennar munu hafa notað í einkaþágu.
„Nei, ég hafði óbeit á þessari límósínu og ég hjólaði á eftir límósínunni í stað þess að setjast upp í á styttri leiðum,“ sagði Ebba Witt og andlitið lýsti upp af heilagleik hins réttláta.
„En hvað með lengri ferðir?“ spurði þáttastjórnandinn.
„Já, í lengri ferðum. Auðvitað settist ég upp í bílinn í lengri ferðum. Til dæmis til flugvallarins og svona … auðvitað.“ Í nótt sá ég svo eftir að hafa samþykkt að Charlotte gæfi út bók þessarar konu hér í Danmörku, bók sem mér þótti ekki nógu góð.)

Annar ágætur félagi minn sendi mér update af stóra Kárason-málinu eins og hún kallar það. Mér skilst að annaðhvort hafi umsókn Kárasonar verið látin hverfa, týnst, ekki verið send eða einfaldlega verið hafnað af úthlutunarnefndinni. Rithöfundurinn Einar segir að þann 24. september árið 2018 hafi hann sent umsóknina. Nefndin segir að engin umsókn frá skáldinu hafi borist. Þegar ég las skýrsluna frá félaga mínum fór ég að hugsa að varla geti það staðist að rithöfundur, sem á allt sitt undir rithöfundalaunum, sendi ekki inn umsókn. Og enn furðulegra ef hann hefur ekki sent inn umsókn að hann væli yfir því í fjölmiðlum að nefndin hafi hafnað umsókn hans. Svona get ég velt vöngum um eitthvað sem ég er í sjálfu sér ekki sérlega áhugasamur um.

Nú sný ég mér að því að svara tölvupóstum sem mér bárust í gær og að því loknu hef ég mín daglegu störf. „Eigðu góðan dag, Snæi minn,“ eins og sagt er nú til dags.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.