Espergærde. „Fólk má gera það sem það vill, svo lengi sem það er gott og fallegt.“

Ég varð fyrir óvæntri og ansi gleðilegri reynslu í gærkvöldi. Þannig er að ég er aftur farinn að spila tennis eftir sex mánaða fjarveru, fjarveru sem má rekja til ökklans á mér. Það veitir mér því einstaklega mikla ánægju að geta hreyft mig á ný og í gærkvöldi spilaði ég tennis frá níu til ellefu. Þegar ég kom heim, sveittur, þreyttur og sæll, settist ég niður inni í stofu til að kasta mæðinni. Ég kom mér vel fyrir í sófa og breiddi teppi ofan á mig því mér var hálfkalt. Mér er ómögulegt að sofna strax eftir svona hamagang, eins og eftir tennisleik, en allir aðrir á heimilinu voru farnir að sofa. Ég sat því einn inni í þögulli stofunni og horfði upp í loftið um stund. Og svo, eins og maður gerir oft þegar maður situr aðgerðarlaus, athugaði ég hvort ég hefði fengið tölvupóst sem flytti mér fréttir frá heiminum. Ég teygði mig eftir tölvunni sem ég er svo heppinn að eiga, og viti menn; svo sannarlega var þarna póstsending. Í bréfinu voru ekki skrifuð mörg orð heldur lá í skilaboðunum það sem kallast hlekkur og ég var hvattur til að skoða það sem lá á bak við hlekkinn. Þarna var sem sagt bara einn hlekkur; tenging inn á myndband frá íslensku galleríi sem kallast Gallerí Göng.

Ég gat auðvitað ekki annað en fylgt þessum hlekk og spilaði myndbandið sem hlekkurinn vísaði á. Þarna á tölvuskjánum mínum stóð allt í einu Helgi Grímsson, minn gamli vinur, og sagði frá myndlistarsýningu sem hann hafði opnað. Hann var farinn að sauma, stunda útsaum og í galleríinu sýndi hann afrakstur vinnu sinnar. Myndbandið sýnir Helga ganga á milli myndanna sem hann hefur saumað á „saumanet“ (ég man ekki hvað það heitir) og segja frá hugsunum sínum og sögunum á bak við myndirnar. Eins og allt sem Helgi tekur sér fyrir hendur var þetta afar fallegt; fallegar myndir og falleg frásögn. Innilegt, heiðarlegt og fallegt. Mig langar að nota sérstök orð til að lýsa þeirri sterku gleðitilfinningu sem streymdi um mig þegar ég fylgdi Helga í gegnum galleríið, en mér dettur ekkert annað í hug en að ég var djúpt snortinn. Að vera djúpt snortinn er auðvitað góð lýsing á þeim tilfinningum sem bærðust með mér en því miður er orðasambandið svo slitið að fólk skynjar ekki þá sterku kennd sem orðin eiga að lýsa.

Sýningu Helga lýkur áður en ég næ að koma til Íslands. Ég hefði viljað getað skoðað myndirnar og textana hans Helga. Og hér er hlekkurinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.