Espergærde. Sápusölumaðurinn

Á göngu minni til vinnu hef ég tekið eftir miðaldra manni með furðulega stóra handtösku sem bíður hvern morgun á horni Lindevej og Stockholmsvej. (Ég veit ekki eftir hverju hann bíður en hann er horfinn þegar ég geng sömu leið heim þegar farið er að kvölda). Síðastliðnar vikur hefur þessi maður staðið á götuhorninu með lítinn hattkúf sem slútir yfir enni hans. Götuljósin varpa gulleitum ljósgeisla yfir manninn í morgunmyrkrinu og þótt hattbarðið sé mjótt varpar það samt skugga yfir andlitið. Hann bíður aldrei góðan daginn þrátt fyrir að ég muldri alltaf einhverja morgunkveðju þegar ég geng framhjá honum. Mér finnst eitthvað óþægilegt við þennan mann og í mínum huga er hann sápusölumaður. Orðið saippuakauppias kemur alltaf í hugann þegar ég geng fram hjá manninum með sölumannstöskuna, sem ég ímynda mér að sé full af sápusýnishornum.

En finnska orðið saippuakauppias (maður sem selur sápu) er eins hvort sem maður les það aftur og bak eða áfram. Þetta er lengsta palindrom-orð (orð sem er eins afturábak eða áfram) í heimi. Þetta lærði ég á bar í Helsinki fyrir nákvæmlega 14 árum, þegar ég horfði þar á leik Liverpool og Manchester United í leiðindum mínum i Helsinki.

Annars varð ég ansi leiður í morgun þegar ég sá að kötturinn minn hafði í ógáti brotið Maríustyttu sem ég hef haft mikið dálæti á. Styttuna keypti ég í ítalska smáþorpinu Vico del Gargano fyrir mörgum árum af manni sem selur muni úr kirkjum sem hafa verið það sem kallast afhelgaðar (hvernig svo sem mennirnir fara að því að afhelga eitthvað.) Ég birti hér mynd af Maríustyttunni minni sem ég ætla að líma saman í dag þegar ég hef fundið hið rétta lím.

Maríustyttan frá afhelgaðri ítalskri kirkju.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.