Espergærde. Símtal að kvöldi

Góður dagur á skrifstofunni. Í gærkvöld fékk ég óvænta hringingu frá manni sem kallaði sig Lars. Ég var nýbúinn að vaska upp, ganga frá inni í eldhúsi eftir kvöldmatinn og hafði sest í stofusófann til að horfa á handboltaleik hjá danska landsliðinu þegar síminn minn hringdi.
„Halló, og gott kvöld,“ segi ég. Ég hafði ekki kannast við númerið á símaskjánum.
„Já, gott kvöld. Er þetta Zlatan?“
Hmm, hugaði ég. Zlatan? Það voru ekki margir sem kölluðu mig Zlatan í síma þótt ég sé alltaf kallaður Zlatan af fótboltafélögum mínum.
„Já … já, þetta er Zlatan.“
„Já, blessaður. Lars heiti ég og ég hafði heyrt að þú værir að missa skrifstofuna þína upp á lestarstöð. Ég er nýbúinn að taka á leigu húsnæði niður við höfn, super lekkert, og ég hafði líka heyrt að þú værir kjörinn samleigjandi. Við erum þrír núna sem leigjum saman en við getum verið sex.“ Svo lýsti hann fyrir mér hvar húsnæðið væri. Og ég þekki staðinn mjög vel, rétt hjá ítalska veitingastaðnum hér við höfnina.
„Nú, já, þetta hljómar vel,“ segi ég og svo komum við okkur saman um tíma til að hittast og það er núna eftir 10 mínútur!

Ég er spenntur eins og barn því ég var farinn að óttast að ég yrði að vinna heima sem mér finnst ekki kjörið og á ekki alveg við mig. Ég er of veikur á svellinu og færi að eyða alltof miklum tíma í uppvask og tiltekt.

Það hafa verið gífurleg þýðingarafköst síðustu daga, ég spóla í gegnum textann og bruna í gegnum bókina. Ég er í góðu formi þessa dagana. Ég set mér háleit markmið hvern morgun og hætti ekki fyrr en ég hef náð í mark og reyni oftast að komast framúr settu marki. Það er föstudagur og ég hafði hugsað mér að ná eins og einum þýðingardegi yfir helgina. Hvað um það nú arka ég af stað og kíki á skrifstofuhúsnæðið. Ég set inn myndir á eftir svo ég muni hvernig allt leit út þegar ég kíkti á staðinn í fyrsta sinn. Yo!

ps. skrifstofan reyndist kannski einum of moderne, of fín, en ég læt mig hafa það. Ég samdi við manninn um að koma inn og hafa engan uppsagnarfrest. Ég gæti farið út þegar ég vildi. Það er fínt því ég veit ekki hvort ég á eftir að þrífast á þessum stað.

Útsýn yfir byggingarframkvæmdir. Það fannst mér það flottasta.

Hér eru mynd frá skrifstofunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.