Espergærde. Maður þarf ekki einu sinni að bíða, heldur bara vera alveg kyrr og aleinn.

Ég byrja daginn með langri göngu út í sveit. Ég ætla ekki að hlusta á Auði Jónsdóttur á göngu minni í dag (ég er alveg að verða búinn að hlusta á alla bókina) heldur hafði ég hugsað mér að taka smátörn í að hlusta á íslenskt útvarp … sennileg Lestina. Það er oft gott efni í Lestinni. Í gær hlustaði ég á viðtal Eiríks Guðmundssonar við Helga Grímsson, um saumaskap, myndlist, tilgang listsýninga og margt annað. Allt sem Helgi segir er litað af góðvild hans og gáfum. Það var mannbætandi að hlusta á samtal þessara tveggja fínu manna og hér er hlekkurinn fyrir þá sem vilja hlusta.

Nú er ég kominn heim eftir gönguna. Göngutúrinn tók tæpa tvo klukkutíma. Sus ákvað að ganga með mér svo ég hlustaði ekki á útvarp heldur hlustaði ég á hana … og mig í samtali okkar tveggja. Við gengum langt og meðal annars fram hjá höfninni þar sem litlu fiskibátarnir vögguðu í blíðunni og framhjá nýju húsi sem er verið að byggja rétt hjá kirkjunni og sögusagnir herma að þar eigi að opna nýtt kaffihús. Ég hlakka til þess að í bænum mínum fæðist nýtt kaffihús. Svo röltum við framhjá nýju skrifstofunni minni og ég tók mynd utanfrá, sjá hér að neðan.

Skrifstofan (efri hæðin) sem ég tek í notkun þann 01.02.19.

Þegar ég horfði á nýju skrifstofuna mín, sem ég er með nokkrar efasemdir um, hugsaði ég með mér: Það er ekki nauðsynlegt að maður fari út úr húsi. Haltu kyrru fyrir við borðið þitt, á stólnum þínum. Þú skalt ekki einu sinni leggja við hlustir, bíddu bara. Maður þarf ekki einu sinni að bíða, vertu alveg kyrr og aleinn. Heimurinn mun gera sig til fyrir þér og opna sig, hann getur ekki annað.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.