Espergærde. Ég móðga

Ég hef verið upptekinn í allan morgun við að lesa í bók eftir ágætan mann sem ég kannast við. Þetta er ekki skáldsaga sem ég les, þótt maðurinn sé skáldsagnahöfundur og þýðandi. Þetta er stutt bók um reynslu rithöfundarins, bataferil og algjöran viðsnúning í hugarfari. Rithöfundurinn varð þekktur fyrir tvær bækur sem hann skrifaði fyrir fáum árum. Undanfarið ár hefur hann undirbúið þriðju bók sína og þá síðustu í svokölluðum þríleik, eins og sumum rithöfundum finnst spennandi að skrifa. Hann hafði stundað rannsóknir sínar fyrir þessa þriðju bók í tæpt ár og hálfnaður með vinnuna við bókina. En því meira sem hann skrifaði þeim mun meira þurfti hann að kreista tannkremstúpuna. Hvert nýtt orð krafðist áreynslu og á endanum var hann orðinn svo frústreraður og reiður í garð allra, ekki síst sjálfs sín, að ekkert miðaði áfram og allt fór í taugarnar á honum. Svo koma kaflaskil.

Úti snjóar í Danmörku og ég er búinn að ganga lítinn hring niður á höfn til að horfa á skipin sigla í gegnum Eyrarsundið í átt til Eystrasaltsríkjanna. Það var erfitt að sjá hver skipsfarmurinn var og hvað það er sem fólkið í Lettlandi getur hlakkað til að fá af vistum frá útlöndum. Kannski skinku?

En aftur að þessum ágæta rithöfundi sem hafði gengið á vegg í haust í ritstörfum sínum. Mitt í þessum skelfilegu harðindum hans rakst hann á auglýsingu um tíu daga hugleiðslunámskeið í Svíþjóð. Hann hefur aldrei verið sérlega „andlega sinnaður“, eins og hann kallar það, en þegar hann rak augun í auglýsinguna var eins og hann hefði fengið kall; þetta er nákvæmlega það sem þú þarft. Hér er lausnin á vanda þínum. Og hann innritaði sig. Tíu dagar í algerri þögn og tíu tíma hugleiðsla dag hvern. Frá því klukkan fjögur á morgnana og fram á kvöld var setið í þögn og hugleitt. Þetta var erfitt, þetta er ironman hugans. Ekkert sem þessi maður hafði áður reynt var jafn erfitt, hvorki líkamlega né andlega. En þetta tíu daga námskeð breytti ekki bara hugarfari og sjálfsskilningi hans – heldur breytti hreinlega heimsýn mannsins, sýn hans á lífið. Þegar hann sneri aftur frá Svíþjóð var hann gerbreyttur og þetta hafði svo mikil áhrif á hann að hann langaði helst til að taka fólk sem hann hitti og hrista það og öskra upp í andlitið á því að það skyldi prófa þetta. Allir skyldu prófa þetta. Þetta var það brjálaðasta, sterkasta og besta reynsla sem hann hefði fengið í lífi sínu. Allir skyldu prófa þetta! En hann öskraði ekki á fólk heldur skrifað hann þessa bók um reynslu sína sem ég hef verið svona upptekinn af að lesa í morgun.

Það er svolítið skrýtið fyrir mig að venja mig við þögnina í kringum mig. Ég vinn einn þessar vikurnar og ég þarf svo sem ekki að hafa samband við neinn vegna verkefnis míns. Allt líður áfram í þögn, þó með undirleik einhverra tónlistarvina minna. Ég sit einn á skrifstofunni minni, síminn hringir sjaldan og sjaldan að einhver komi í heimsókn. Ég fæ fáa tölvupósta á daginn sem ég þarf að svara, í hæsta lagi tíu ef ég er heppinn. Áður en ég seldi fyrirtækið mitt fékk ég stundum meira en 140 tölvupósta á einum degi sem ég þurfti að bregðast við. Nú verð ég allur upprifinn og glaður þegar einn og einn tölvupóstur lendir í tölvupóstkassanum mínum.

Ég sendi tölvupóst til manns um daginn sem ég hef ekki verið í sambandi við lengi. Ég átti lítið erindi við manninn. Það eru liðnir nokkrir dagar frá því sendingin fór af stað og enn hef ég ekki fengið nein viðbrögð við póstinum. Að vísu voru engar spurningar eða neitt í bréfinu sem í sjálfu sér krafðist svara. En ég hafði einhvern veginn reiknað með því að fá viðbrögð. En svo, þegar tíminn leið og ekkert svar barst, fór ég að hugsa hvort viðkomandi væri reiður út í mig. Ég á það til að stíga á tærnar á fólki, alveg óviljandi. Ég er stundum klaufi hvernig ég orða hlutina og get hljómað grimmur og móðgandi, þótt fátt sé mér meira óeðlilegt en að vera leiðinlegur við fólk. En ég á það til að móðga fólk því bæði er ég klaufi og svo er ég óstjórnlega stríðinn (með stríðninni langar mig bara að fá smá fjör.) En nú er ég hræddur um að ég hafi móðgað þennan gamla félag minn einhvern tíma á leiðinni, að ég hafi sagt eitthvað ónærgætið, og þess vegna fái ég engin viðbrögð við póstsendingu minni. „Þú ert flókin sál, Snæi,“ var sagt við mig fyrir stuttu og kannski er þetta eitt af merkjum þess að maður sá flókin sál.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.