Enn snjóar í litla bænum mínum. Göturnar alhvítar og þunnt snjólag er á lauflausum trjágreinunum. Og snjórinn fellur af himnum ofan og hylur veröldina hvítri slæðu. Það var ekki svo heppilegt að það byrjaði að snjóa því Númi átti að taka bílpróf eldsnemma í morgun. Hann sagðist ekki vera taugaspenntur en ég gat vel fundið á honum að hann var nokkuð stressaður. En sem betur fer stóðst hann prófið en það er alls ekki sjálfgefið hér í Danmörku þar sem 50% af þeim sem taka bílpróf falla og þurfa að endurtaka prófaksturinn.
Ég keyrði langa vegu, meira en 100 km, til að fara á Cohen-tónleika í Holbæk í gærkvöldi. Vinkona okkar hér í Espergærde, söngkonan, er með í hljómsveit sem hélt minningartónleika um Cohen rétt eftir að tónlistarmaðurinn féll frá og það voru víst svo magnaðir tónleikar, svo magnaðir að þau hafa margsinnis verið beðin um að endurtaka þessa tónleika, sem þau gera nú með lítilli tíu daga tónleikaferð um Danmörku. Og við fengum boðsmiða á tónleikana í Holbæk þar sem annars var gersamlega uppselt. Þetta voru ansi góðir tónleikar og hljómsveitin var sannarlega mögnuð. Jasshljómlistarmenn sem lyftu mörgum lögum Cohen upp í nýjar hæðir. Ég hef aldrei veið sérlega ánægður með hljómsveitirnar sem hafa spilað með Cohen sjálfum. En þessir tónleikar voru mjög góðir.