Jón Kalman hefur alltaf verið duglegur að senda mér ljóð sem hann hefur sjálfur hrifist af. Ég fæ því af og til send hingað til Danmerkur úrval ljóða valin af skáldinu. Það er mér mikil ánægja að fá þessi sýnishorn af þeim kveðskap sem er í huga skáldsins í Mosfellsbæ. Auk þess finnst mér það bera vitni um svo góðan hug að hann hugsi til mín og sendi mér ljóð hingað til útlanda. Í gær fékk ég fínt ljóð eftir Ísak Harðarson.
Mér kemur þá í hug orðin sem mér voru kennd þegar ég var ungur: Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Þetta er nú mín menntun.
Og í gær kláraði ég að borga fyrir menntagöngu mína, síðasta greiðslan af láninu frá Lánasjóðnum er greidd og ég er laus undan því oki. Það var því tími til að fagna í gær þótt ég hafi ekki gert annað í gleði minni en að brosa með sjálfum mér. Ég opnaði hvorki rauðvínsflösku, rúsínupakka, kampavín, konfektkassa eða bjór þótt ég hefði auðvitað átt að halda betur upp á þessi miklu tímamót. Þar að auki fékk Númi bílpróf í gær.