Espergærde. Vei einstæðingnum.

Ég er hættur að borða egg. Að minnsta kosti á morgnana borða ég ekki egg. Í gær fékk ég mitt síðasta egg. Strax og ég hafði kyngt seinasta bitanum sá ég eftir þessari eggmáltíð og ákvað að fara út og fá mér ferskt loft. Ég klæddist þykkri peysu undir yfirhöfninni.

Ég hafði ekki gengið langt þegar ég mætti félaga mínum með hundinn. Venjulega hittumst við snemma morguns þegar myrkrið grúfir yfir bænum og allt verður hálf grófkornað og óskýrt. En nú var dagbjart og félagi minn með hundinn hímdi yfir hundi sínum á meðan hann kúkaði (hundurinn). Eins og alltaf hafði hann (maðurinn) stóra kaffikrús meðferðis. Hann saup á krúsinni þegar hann sá mig og brosti gleðilaust til mín. Svipurinn var svo þungur að ég var ekki viss hvort ég ætti að ganga til hans og spjalla. Hann virtist ekki beint vera upprifinn að sjá mig eða kæra sig um félagsskap. Ég gekk samt til hans og skoðaði hann í fyrsta sinn í björtu. Hann hafði miklu grófari húð en ég hafði ímyndað mér.

„Sæll, Peter,“ sagði ég og var allt eins tilbúinn að halda ferð minni áfram ef ég skynjaði að hann var ekki í skapi til að tala við mig.
„Sæll, fräulein Schneebär. Hvaða ferðalag er á þér um miðjan dag?“
„Ég fór heim til að fá mér að borða hádegismat,“ svaraði ég og íhugaði að setja hann inn í ástandið með eggneyslu mína en ákvað þó að þegja.
„Jæja … en nú þarf ég að losa mig við hundinn … “
„Losa þig við hundinn? Hva … ætlarðu að aflífa hann?“
„Nei … aflífa … nei … ég kem honum fyrir hjá dýraverndunarfélaginu og þeir sjá um að finna nýja eigendur.“
„Nú … já …“
„Dóttir mín er orðin táningur og nennir ekki þessum hundi, svo erum við að flytja … og … ég er þá einn með hundinn,“ hann andvarpaði. „Betri eru tveir en einn … falli annar getur hinn reist félaga sinn við, en vei einstæðingnum sem fellur og enginn er til að reisa á fætur.“

Einu sinni fékk ég eggjasamloku sem var full af mæjónesi og eggjaskurn. Kannski er það þess vegna sem ég er kominn með nóg af eggjum.

Á leið minni til vinnu í morgun klæddist ég vetrarúlpu. Það er kalt úti. Ég hafði gengið stuttan spöl þegar ég stakk höndunum í þunna úlpuvasana. Í öðrum vasanum fann ég minnisblað, eða minnisteikningu af vegum og húsum; sennilega yfirlitsmynd af litlu þorpi við sjó því efst á myndinni var mynd af höfn og bátum. Í hægra horni teikningarinnar var kirkja, ég undraði mig á hvað þetta var fallega teiknuð kirkja. Ég veit satt að segja ekki hvaðan þessi teikning kemur og hvað hún á að sýna. Ég stakk henni bara aftur niður í úlpuvasann minn. Þegar ég kom á skrifstofuna tók það mig nokkrar mínútur að fá aftur hitann í fingurna svo ég gæti skrifað á hnappaborðið. Ég var alveg dofinn af kulda.

Ég las einhvers staðar að rithöfundar væru farnir að skrifa miklu styttri setningar en áður og er það skrifað á reikning þess að athyglishæfni lesenda hefur undanfarin ár minnkað; langar setningar geta orðið lesanda með slaka athyglisgáfu ofviða og þannig dregið úr ánægjunni við lesturinn. (Þetta var löng setning). Ég hugsaði um þetta á göngu minni í morgun og komst að þeirri niðurstöðu að mér finnst (að öllu jöfnu) langar setningar fallegri og safaríkari en stuttar setningar. Stundum geta samt stuttar setningar verið furðulega góðar. Ætli hæfni rithöfunda til að skrifa langar og fallegar setningar hafi hrakað á sama tímabili og athyglishæfni lesanda minnkaði?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.