Espergærde. Ylur hjartarótanna

Dagur flutninga. Ég flyt af lestarstöðvar-skrifstofunni, þó í áföngum. Í dag ákvað ég að keyra allt það drasl sem Ole og Majse höfðu skilið eftir á kontórnum þegar þau fluttu út á haugana. Það var heil kerra með drasli og ég er búinn að vera allan morguninn í flutningaham.

Drasl af skrifstofunni flutt á haugana

En nú er klukkan að verða eitt og ég er sestur niður. Áðan keypti ég mér eina sneið af svínakjöti í búðinni sem ég borða í hádegismat. Ég bar svínakjötið upp að munninum á mér með puttunum því ég hef engin hnífapör handbær og nú að lokinni máltíð löðra fingurnir á mér í fitu. Í eftirrétt hellti ég mér upp á einn bolli af rótsterku kaffi. Einhver sagði mér að espresso hefði fengið íslenskt nafn, en ég man ekki hvert nafnið var. En ég segi bara rótsterkt kaffi. Ég hellti mér upp á rótsterkt kaffi.

Á morgun (allt er í tímaröð: morgun, hádegi, morgundagur) flýg ég til Íslands með flugvél í eigu Icelandair. Það verður stutt ferðalag, en ég hlakka til.

ps. ég fékk svo uppörvandi bréf í morgun að ég er enn á flugi – ég er satt að segja enn ólýsanlega glaður í hjartanu. Bréfið, sem var frá aðila sem skiptir mig miklu máli, var fullt af fallegum orðum sem yljuðu mér um hjartaræturnar. Meira að segja fékk Kaktusinn (dagbókin mín) líka hól í sama bréfi, sem kom mér þægilega á óvart.

pps. Að menn nenna enn að velta sér upp úr þessu Klausturmáli. Maður hlýtur að hafa lágt sjálfsmat ef maður velur að halda áfram að sparka í þennan þingmann, Bergþór?, sem nú kemur skríðandi inn á sviðið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.