Ég er á leið til Íslands og sit á veitingastað á flugvellinum. Nú er svo komið að sumt af fólkinu sem starfar í flugstöðvarbyggingunni; bókabúðafólkið og hér á uppáhalds veitingastaðnum mínum eru farin að heilsa mér þegar ég fer í gegnum flughöfnina; spyrja frétta af mér og hver áfangastaðurinn sé í þetta skiptið. Ég finn fyrir velvilja og mér er tekið með glotti á vör. Ég er skondinn ferðalangur. Langur og nefstór.
En nú er tímaröðin ekki rétt, því í morgun, allsnemma var ég mættur á lestarstöðvarskrifstofuna. Lars félagi minn, sem er hluti af surprise fredag -genginu hafði skipulagt boxæfingu með boxþjálfara. Frá því klukkan 7:45 og í klukkutíma höfum við æft box og það tekur á. Eftir æfingarnar þurfti ég að flýta mér heim og upp í lestina til Kastrup. Þegar ég kom til flugvallarins, flughafnarinnar, frétti ég að fluginu er seinkað og það styttir dvöl mín á Íslandi, því miður. Í þetta sinn hef ég ekki skipulagt margt og hef hugsað mér að einbeita mér að börnum mínum og barnabörnum. Margir af mínum góðu félögum á Íslandi eru fjarri höfuðborginni; annað hvort í útlöndum eða úti á landi
En það sem hefur haft mest áhrif á mig síðustu daga er tvennt: Í fyrsta lagi bókin sem ég les um manninn sem er lokaður inni í hugleiðsluhöll í Svíþjóð í tíu daga og má hvorki tala eða hafa samskipti við aðra. Hann mátti bara hugleiða, einbeita sér að eigin andardrætti. Þetta er heillandi frásögn og það sem mér finnst allra mest heillandi er þjáningin sem hann lýsir; bæði líkamleg og andlega. Og sá lærdómur sem hann nær að tileinka sér; as is – svona er þetta – sem er mikilvæg hugsun. Að sætta sig við eigið ástand og halda áfram að lifa og þola þær tilfinningar sem koma upp í höfuðið á honum. Umbera tilfinningarnar og skoða eins og þær séu hlutir á sveimi sem hægt sé að skoða í rólegheitunum án þess að þær velti manni á hliðina. As is.
Hitt atriðið sem hefur ýtt við mér síðustu daga er bréf frá félaga mínum. Það fylgir mér hvert sem ég fer og ég hugsa um þetta bréf. Það er merkilegt hvað svona tilskrif geta gert, bréf sem eru svo full af einlægni, sannleika umburðarlyndi og hvatningu.
„Berið hvers annars byrðar“, sagði annar félagi minn við mig í gær og þá hugsaði ég. Þarna liggur styrkur minn. Ég er svo góður að bera. Þetta er einn þeim hæfileikum sem ég met allra mest við sjálfan mig. Ég er svo góður að bera (það skyldi enginn vanmeta).
ps. við fengum gesti í gær. Við fáum marga gesti til okkar á Søbækvej, sem betur fer. En í gær komu gestirnir alla leið frá Íslandi; sjálfur byggingarverktakinn okkar kom í heimsókn ásamt konu sinni. Það var gaman að fá ekta Íslendinga í heimsókn, við reyndum að gera okkar besta í að taka vel á móti þeim; athygli, matur, vín og bjór skyldi bara vera í toppklassa. Ég held að þau hafi verið glöð.