Reykjavík. Hattur og appelsínugul húfa í einni dyragætt.

Sunnudagsmorgunn í Reykjavík. Ég sit á Kaffi Vest, út við gluggann sem snýr að Hofsvallagötu, og bíð eftir Palla Vals sem ég hef mælt mér mót við. Klukkan er tíu mínútur yfir tíu, Palli er ókominn. Ég hef ekki áhyggjur þótt liðnar séu nokkrar mínútur fram yfir ákveðinn fundartíma. Út undan mér sé ég Gísla Martein koma inn, hann er með appelsínugula húfu á höfðinu. Rétt að baki hans kemur Palli og kíkir inn um dyrnar. Hann stoppar í dyragættinni til að virða fyrir sér gesti kaffistaðarins. Hann er með hatt á höfðinu, réttir síðan upp hægri hönd þegar hann sér mig og arkar ákveðnum skrefum til mín. Ég loka tölvunni.

Fundur okkar Palla tók þrjá klukkutíma – var einungis rofinn þegar Haraldur Jónsson kom allt í einu blaðskellandi. „Nei, þetta hef ég aldrei séð áður. Tveir útgefendur á einum stað. Þetta hlýtur að vera photosjoppað! Hehehehe! Heyriði strákar, það er síðasti dagur sýningarinnar minnar á Kjarvalsstöðum í dag, ha! Þið vitið þá af því …“ og svo var hann horfinn.

Ég flýg aftur til Danmerkur á morgun en fyrst á ég morgunfund með Jóni Karli klukkan 8:30. Hann hringdi í mig í dag til að færa mér gleðitíðindi sem við ræðum nánar á morgun. Ég hlakka gífurlega til. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.