Reykjavík. Með sleða í eftirdragi

Morgunn í Reykjavík og morgunstörf að baki; morgunkaffið framreitt og Styrmir kominn á leikskóla. Fundi mínum með Jóni Karli er lokið. Gott að ég þekki hann. Og nú sit ég einn eftir á Kaffihúsi vesturbæjar. Ég hef ekki mikinn tíma því flugrútan, sem ég er svo hundóánægður með; þröng sæti og eilífi bið, fer af stað til Keflavíkur eftir klukkutíma.

Það er snjór á gangstéttunum, frost í veðri og dimmt í Reykjavík. Á göngunni í morgun með Styrmi niður á leikskóla mætti ég manni sem ég kannast við. Hann stöðvaði mig því hann sagðist eiga við mig erindi.
„Sæll, manstu eftir mér?“ spurði hann og horfði feimnislega á mig. Ég leit á þennan húfuklædda mann og augu mín festust á andstróknum sem liðaðist útúr munninum á honum og gufaði upp fyrir ofan höfuð hans.
„Já, auðvitað man ég eftir þér.“
„Ég á svolítið erindi við þig, ég hef lengi ætlað að hafa samband við þig út af dálitlu,“ sagði hann tafsandi.
„Já, hvað var það.“
Síðan kom löng og afar óljós ræða sem átti að skýra erindi mannsins við mig. Ég var orðinn óþolinmóður undir tali hans, því ég hafði ekki mikinn tíma og Styrmir sat á sleðanum sem ég hafði í eftirdragi. Á tímabili grunaði mig að hann héldi mig annan en ég er og erindið var ætlað annarri persónu – satt að segja missti ég áhuga á því sem maðurinn vildi mér því allt var svo loðið og náði ekki að vekja áhuga minn. Ég greip því fram í fyrir honum þarna á gangstéttinni á Ægisíðu og bað hann að senda mér tölvupóst þar sem hann skýrði erindið og ég lofaði að svara hratt og vel. Síðan kvaddi ég og gekk af stað.

Þegar ég leit um öxl eftir að hafa gengið spölkorn með sleðann í eftirdragi sá ég að maðurinn stóð enn í sömu sporum. Sennilega hef ég móðgað manninn með óþolinmæði minni, hugsaði ég.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.