Espergærde, Hólmavík-bay

„Only one book has made me cry in recent years,“ sagði sessunautur minn í fluginu til Kaupmannahafnar frá Reykjavík í gærdag. Þetta var ungur maður og líktist einna helst poppstjörnu. Ég náði aldrei að fá út úr honum við hvað hann starfaði en hann vildi endilega tala um bækur þegar hann sá að ég var að lesa Patriciu Highsmith.
„Fyrirgefðu, ungi maður,“ sagði hann allt í einu við mig þegar flugið sveif yfir suðurströnd Íslands. „Þú ert að lesa Patriciu Highsmith. Það er óvanalegt nú um daga. Hvernig finnst þér bókin?“
„Ég er nú bara á á blaðsíðu sextíu og fimm. En það er gaman að lesa þessa bók. Ég kann vel við Mr. Ripley, aðalpersónuna, þótt hann sé svo falskur, lyginn og ómerkilegur. Ég hefði samt ekki viljað vera vinur hans væri hann af holdi og blóði,“ svaraði ég og leit um leið á bókina sem hann hafði fiskað upp skömmu áður; The Collector, John Fowles.
„Ég er gífurlegur aðdáandi Patriciu,“ bætti hann svo við.
Ég var ánægður að geta tekið þátt í samræðum um Highsmith því ég hafði lesið mér til um hana áður en ég byrjaði á Ripley-bókunum: „Vissir þú að útgefandi hennar sagði eftir lát hennar að hann hafði aldri kynnst jafn illgjarnri og grimmri konu. Hún gat aldrei sagt elskulegt orð við aðra; það var heldur enginn sem elskaði hana. Þess vegna bjó hún alla sína ævi með dýrum. Útgefandinn skildi heldur aldrei hvernig nokkur mannvera gat verið jafn ljót, í merkingunni illa innrætt, og Patricia Highsmith … en bækurnar hennar, sagði hann, voru brilliant.“

Eiginlega varð ég svo hissa á að eiga samtal um bækur í flugvél að ég varð nær orðlaus. En það skipti ekki máli því sessunautur minn, Englendingur með gífurlega lifandi augu og með hár sem stóð af náttúrulegum ástæðum út í allar áttir, naut þess að tala. Hann hafði verið í stuttri Íslandsheimsókn og hafði komið til landsins fyrst og fremst vegna þess að áhugi hans vaknaði á landi og þjóð eftir að hafa lesið bækur eftir nokkra íslenska rithöfunda; Laxness, Hallgrím Helgason, Arnald Indriðason… Og til að heimsækja Hólmavík, eða Hólmavík-bay eins og hann kallaði þorpið, það var í raun megintilgangur ferðarinnar. Mér varð hugsað til bókarinnar Vegurinn til Hólmavíkur (eða The Road to Hólmavík-bay). Skyldi hann hafa lesið hana? En svo kom þessi setning: „Only one book has made me cry in recent years … Never let me go, by Kazuo Ishigruo.“ Þarna hitti ferðafélagi minn mig í hjartastað. Slepptu mér aldrei er bók sem fær meira að segja steinhjarta til að fella tár. Ferðafélagi minn fékk aukastig og setan í flugvél var ekki eins leiðinleg og oft áður.

Það var komið kvöld þegar lestin frá flugvellinum náði til Espergærde. Ólíkt því sem ég hafði kynnst í Reykjavík var enginn snjór á götunum og heldur ekkert frost í loftinu. Úti í kvöldmyrkrinu voru fáir aðrir á ferli en ég sem dró á eftir mér hálftóma ferðatösku. Víða sá ég inn um upplýsta glugga að fólk sat heima í stofum sínum og horfði á sjónvarp. Sennilega einhverjar fréttir um vanrækslu ríkisins gagnvart borgurum sínum, hugsaði ég. Ég er kominn með svo mikla óbeit á þessu gífurlega magni fórnarlamba sem birtast kvöld eftir kvöld á sjónvarpsskjánum; mér leiðist svo hin nýja fórnarlambamenning.


dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.