Espergærde. Heimsókn kappa í appelsínugulum fötum

Nú er útflutningurinn af skrifstofunni farinn að kalla á athygli mína. Ég á að vera kominn út fyrir þann fyrsta febrúar. Leigjandinn, hinar dönsku járnbrautir, höfðu boðað komu eftirlitsmanna sinna nú í morgun til að kíkja á húsnæðið. Og sannarlega komu þeir í sínum appelsínugulu göllum, feitir og pattaralegir. Þeir voru tveir, annar kom aldrei inn því hann stóð og reykti sígarettu fyrir utan en hinn kom askvaðandi á sínum skítugu skóm (ég var nýbúinn að skúra) og hann kallaði sig Kim.

Og Kim var undrandi á að ég skyldi ekki vera fluttur út. En samningurinn rennur út 01.02.19. svo ég er ekki fluttur út því að í dag er sá þrítugasti janúar. Kim sagðist ekki geta sinnt eftirlitsstörfum sínum fyrst ég hefði ekki tæmt húsnæðið og hann sagðist koma aftur á morgun og þá skyldi ég var fluttur út. Ég sagðist flytja út á morgun.
„En það skal vera áður en ég kem. Þú skalt vera fluttur þegar ég kem!“
„Ég skal bara vera kominn út fyrir fyrsta febrúar. Ég flyt á morgun.“
„En ég kem ekkert hingað undir miðnætti,“ sagði Kim.
„Þú ræður alveg hvenær þú kemur, það er ekki mitt mál. Ég skal bara vera fluttur þann fyrsta febrúar.“

Svona körpuðum við, ég og Kim, og maðurinn með sígarettuna kíkti inn um gættina til að athuga hvort hann ætti að skerast í leikinn. Þetta voru nú meiri kapparnir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.