Espergærde. Konan í bakaríinu

Ég ákvað að byrja morguninn með morgungöngu, sunnudagsmorgungöngu og það var fyrir fótaferðartíma flestra. Það er ekki lengur svo dimmt úti snemma á morgna en það er kyrrt, sérstaklega á sunnudagsmorgnum. Eins og svo oft áður gekk ég niður að höfn til að skoða skipin, bátana, horfa á hafið og kíkja yfir til Svíþjóðar til að sjá hvað þeir hafa fyrir stafni snemma sunnudagsmorguns hinum megin við Eyrarsundið.

Ég hafði ekki staðið mjög lengi úti á bryggju þegar ég ákvað að snúa við, mér fannst ég ekki getað bara hangið úti á bryggju þegar verkefnin bíða. Enn var enginn á ferli niður hjá bátunum en ég sá í fjarska að konan með rauða hárið, sú sem opnar bakaríið, bjástraði við að kveikja á tveimur kyndlum sem hún hafði keypt fyrir löngu til að setja hvor sínum megin við bakarísdyrnar þegar kalt er úti. „Það gefur tilfinningu um líf að hafa eld í kringum sig,“ sagði hún hressilega einu sinni, einn morgun, þegar ég kom a’ henni við að stilla kyndlunum sínum upp.

Ég ákvað að ganga inn í bakaríið og kaupa kaffibolla sem ég gæti drukkið á bekknum sem bakarísfólkið hefur sett upp við gaflinn. Inni í bakaríinu var ekki einn viðskiptavinur; bara afgreiðslukonan með litaða rauða hárið. Hún vill reyna að vera hress, bæði í útliti og framkomu. Þess vegna klæðir hún sig alltaf í litrík [oft gul) föt sem passa vel við rauða hárið sem hún hefur jafnan í tveimur fléttum; Línu langsokk-style.

„Komdu inn elsku kallinn, hvað má bjóða þér?“ spurði hún hressilega þegar ég kíkti inn um gættina.
„Ég ætlaði nú bara að fá einn kaffibolla,“ svaraði ég stillilega. Ég er aldrei með í „ég er hress“-leiknum.
„Bara einn kaffibolla? Viltu ekki eitthvað sætt, þú sem ert svo sætur?“
„Nei, takk. Bara einn kaffibolla.“
„Fáðu þér hérna súkkulaðikökusmakk … ég var að taka súkkulaðikökuna úr ofninum …“
„Nei, takk. Ég er ekki svo mikið fyrir sætt.“
„Hvaða vitleysa. Allir eru vitlausir í sætindi ….“
Og svona hélt hún áfram í sínum ofurhressa tón og það tók mig margar mínútur að sleppa undan heljartaki þessarar hressu konu.

Já, nú er sunnudagur og ég hef verkefni sem ég þarf að sinna. Annars hefði ég verið til í að horfa svo sem á einn fótboltaleik. Það finnst mér stundum gaman. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.