Cat Power syngur fyrir mig á nýju skrifstofunni. Ég spila hátt (hátalarinn titrar) því ég er hér einn og af því að ég er í stuði. Á leiðinni til vinnu – nú geng ég í aðra átt, aðra leið á nýja skrifstofu – mætti ég nágrannakonu minni. Við spjölluðum stuttlega og svo sagði ég eitthvað sem stuðaði hana (það geri ég viljandi til að stríða) svo hún sagði:
„Svona segir enginn karlmaður.“
„Hvernig veistu það? Þú gerir ráð fyrir að þú þekkir alla heimsins karlmenn. Ég er Snæi og svona tala ég. Það skiptir engu máli hvort ég er karlmaður eða kona eða hvorugt. Svartur, hvítur, grænn eða rauður. Ég er Snæi, Snæi það er ég.“
Sennilega brást ég svona hart við því er orðinn svo hundþreyttur á þessari hundleiðinlegu identity pólitík sem er keyrð þessa dagana. Það er svo mikil einföldun að setja allt og alla í flokk. Hingað til hef ég bara fengið að vera ég, en nú finn ég fyrir því í vaxandi mæli að vera settur í flokkinn hvítur karlmaður. Ég er sannarlega hvítur karlmaður, meira að segja miðaldra og það passar mér bara stórvel, en það er ekki ég. Ég er Snæi.