Espergærde. Í taumi

Ég heyrði útundan mér að á Íslandi væri áhugi á að hunsa eða sniðganga Eurovision-söngvakeppnina því hún væri haldin í Ísrael. Það þótti mér furðulegt. Hefur fulltrúi Íslands ekki sungið athugasemdalaust hingað til þótt söngvari Ísraels sé einnig þátttakandi. Er það fyrst nú eftir að Ísrael vinnur að menn eru ósáttir við þátttöku Gyðinganna? Þetta er nú meiri hræsnin, finnst mér. Og furðulegt að taka stríðsafbrot Ísraela sérstaklega fyrir. Þau eru ekki fögur, en það er svo margt ófagurt í heiminum sem horft er framhjá og menn skyldu kannski skoða hug sinn áður en þeir ákveða að refsa einni þjóð en ekki annarri. Það er að segja ef menn vilja ekki láta hræsnina ráða för; að vera í taumi hræsninnar. Væri ekki viturlegra og áhrifaríkara að taka þátt í þessari keppni og tjá áhyggjur sínar af ástandinu í Palestínu í stað þess að halda sig heima í fýlu?

Ég hef líka verið að furða mig á öllum þeim málum sem nú koma upp þar sem manneskjur eru ákærðir í fjölmiðlum og slík ákæra hefur í för með sér að fólk bæði missir æru og störf og enginn vill við það tala. Er nóg að ákæra í fjöl­miðlum til að dæma fólk úr leik? Er engin þörf á dómstól lengur? Er þetta ekki svolítið hættulegt?

Ég ýti þessu frá mér. Ég fæ mér kaffisopa. Ég spila músik. Ég stilli mig inn á daginn. Ég þarf að ná hinu daglega takmarki mínu við vinnu. Lars, sá sem situr á skrifstofunni með mér, er ekki mættur. Hann mætir seint; yfirleitt undir hádegi. Menn taka störfum sínum létt í skipaflutningabransanum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.