Nú ver ég mestum tíma dagsins í að setja texta á blað. Ég sit meira og minna allan vinnudaginn yfir orðum. Ég er með frekar þétt þýðingarprógramm á næstunni og má ekki slá slöku við. Lámarksafköst eru tíu síður á dag. Á þessum hraða verður ekki komist hjá því að skrifa stundum einhverja bölvaða vitleysu, ambögur og bull. Þá hugsa ég alltaf hvað það væri gott ef maður gæti alltaf skrifað svo lifandi, kröftuglega og beitt að orðin smygju inn í innstu fylgsni sálar og anda, milli liðamóta og inn í merg; að orðin hefðu áhrif á hugsanir og hugrenningar hjartans. Já, það væri gott.
Í morgun var „surprise fredag“. Litli hópurinn okkar (átta manns) var boðaður út á bílastæði stórverslunarinnar hér í bænum klukkan 7:45. Þaðan var keyrt um bæinn og endað fyrir utan einn var barnaskólum Espregærde. Hópnum var síðan smalað niður í kjallara undir skólanum þar sem leyndist skotæfingasvæði. Þar heldur Skotfélag Espergærde til og þar var sett upp keppni í skotfimi. Ég er ekki sérlega góður að hitta í mark og varð í fjórða sæti. En þetta var gaman. Og við fengum höfðinglegar móttökur hjá þremur karlmönnum á eftirlaunaaldri. Mjög kurteisir menn og vinsamlegir.
Á morgun flýg ég til Ítalíu, til Mílanó. Frá flugvellinum í Mílanó keyri ég yfir fjöll og firnindi, upp í Alpana og inn til Livigno þar sem ég ætla að renna mér að skíðum í eina viku (uno settimana). Nágrannar okkar, Lars og Pia (og börn) koma með okkur. Níu manna hópur. Yo!