Livigno. Úr anddyri Vesturgötu 10

Hluti af verkefninu sextíu og sex sviðmyndir frá Reykjavík kom til mín í svefni í nótt. Eða réttara ég var í einhverju hálfmóki og hugsaði með mér um leið og hugsunin um sviðsmyndina sótti á mig að ég skyldi skrifa þetta hjá mér. Þetta væri hluti af verkefninu.

Þegar ég vaknaði í morgun og rifjaði upp hugsanir næturinnar varð mér strax ljóst að þetta væri alls ekki hluti af Reykjavíkurverkefninu sextíu og sex senur frá Reykjavík. Ég get samt sagt frá þessu undarlega atviki. Í nótt sótti sem sagt allt í einu á mig atburður. Ég stóð í anddyrinu á þáverandi skrifstofu Bjarts á Vesturgötu 10 og var að kveðja einn af höfundum forlagsins sem hafði komið í heimsókn. Alltaf þegar þessi tiltekni höfundur kom í heimsókn fannst mér ég þyrfti að halda uppi samtalinu, segja tíðindi, spyrja hann frétta, spyrja um hvernig skriftir gengju, vera skemmtilegur o.s.frv. Mér var þessi höfundur kær og mér þóttu bækur hans sannarlega góðar. Þannig er það að maður elskar ekki fólk einungis með tungunni heldur aðallega með gjörðum sínum og sannleika. Þetta voru sennilega skilaboð mín þá til þessa höfundar, sem hefur í dag náð vissri stöðu innan rithöfundarstéttarinnar, að hluta til vegna þess að hann hefur haft vit á að þegja á mannamótum og hefur það sennilega enn og lætur aðra um að dansa í kringum sig.

En þarna stóðum við; hann á heimleið, ég lét móðan mása, hann þagði, en svo varð mér litið upp Garðastræti þar sem ég kom auga á mann í leðurjakka sem hjólaði í rólegheitum upp götuna. Ég sá ekki betur en hann væri á hjólinu mínu, sem einmitt hafði verið stolið frá mér daginn áður, mér til mikils hugarangurs. Ég hljóp af stað án þess að hika og var harðákveðinn í að endurheima hjólið mitt. Ég hljóp eins og vitlaus maður – sem fótboltamaður get bæði hlaupið hratt og langt og var því ekki lengi að hlaupa manninn uppi.
Um leið og ég náði upp við hliðina á manninum greip ég í handlegginn á honum og sagði honum að stoppa. Hjólreiðamanninum, sem hafði hjólað í rólegheitunum á svörtu TREK hjóli, (nákvæmlega sömu tegund og ég hafði keypt daginn áður og verið stolið sama dag) varð greinilega mjög brugðið því hann snarstansaði og stökk af hjólinu eins og hann ætlaði að flýja en ég ríghélt honum.
„Ég tek hjólið,“ sagði ég.
Maðurinn, sem var af náttúrunnar hendi ansi syfjulegur á svipinn og með grátt litaraft, starði óttasleginn á mig en kom ekki upp einu orði.
Svo dró ég hjólið til mín og gerði mig líklegan til að setjast á hjólhestinn og hjóla burt, því ég gerði ráð fyrir að maðurinn vissi hvað klukkan sló og hann hefði bara ákveðið að láta hjólið aftur af hendi möglunarlaust. En allt í einu tók ég eftir að þetta gat alls ekki verið hjólið mitt, sætið var öðruvísi á litinn og stýrið hafði annað form.

Það runnu á mig tveir grímur. Maðurinn andspænis mér hafði líka tvær grímur, og stóð algerlega stjarfur. Ég sá að ég átti ekki um annað að velja en að rétta honum hjólið aftur og biðjast afsökunar. Þetta hefði verið misskilningur.

Ég gekk lúpulegur til baka eftir Garðastrætinu. Það var sumar og óvenju heitt í lofti þótt tekið væri að kvölda. Höfundurinn, sem hafði verið í heimsókn, stóð enn léttklæddur í anddyri Vesturgötuskrifstofunnar og skildi ekki neitt í neinu. Hann spurði einskis sem enn í dag undrar mig. Ég kvaddi hann „vertu blessaður, elskan mín,“ sagði ég. Ég hafði ekki áhuga á að útskýra fyrir honum hvað hefði farið fram í huga mér frá því ég hljóp af stað eftir hjólreiðamanninum og þar til ég kom til baka. Ég var búinn að fá nóg af því að útskýra fyrir þessu skáldi hvað gerðist innra með mér. Nú, þegar ég hugsa mig um verður mér ljóst að ég átti sennilega bara einu sinni aftur eftir að útskýra fyrir manninum hvað gekk á í huga mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.