Livigno. Tvífarinn, the doppelgänger.

Það var aldeilis sem fjöllin tóku vel á móti okkur í dag: sól og heiður himinn, rennislettar skíðabrekkur og varla nokkur á skíðum í brekkunum snemma í morgun. Þessi skilyrði henta mér vel.

Mér var annars nokkuð brugðið, þegar ég í einni af fyrstu ferð dagsins kom inn í lyftuklefann sem flytur mann upp á topp skíðabrekkunnar, að sjá Svein Yngva Egilsson sitja þar í mestu makindum. Ég rak upp stór augu og Sveinn Yngvi brosti sínu blíðasta þegar ég glápti svo hissa á hann. Hann mjakaði sér um einn rass svo Númi gæti sest við hliðina á honum en ég settist á móti. Ég hafði rétt sest þegar það rann upp fyrir mér að maðurinn var ekki Sveinn Yngvi heldur tvífari hans. En ég gat ekki á mér setið og sagði við manninn:
„Ég veit ekki hvort það gleður þig eða hryggir en á Íslandi er til annað eintak af þér. Þar er maður sem er fullkominn tvífari þinn.“
Maðurinn horfði heldur fálega á mig og sagði svo: „Það getur enginn verið eins og ég. Ég er einn og sérstakur,“ með þessum orðum lokaði hann samtalinu.

Ég sá strax að ég hafði gert mistök með því að benda manninum á að til væri tvífari hans á Íslandi. Það reyndist ekkert líkt með þessum tveimur, þegar maðurinn opnaði munninn blasti við mér einhver hégómagikkur og sýndi fullkominn skort á lítillæti. Lítillæti og hégómaleysi eru einmitt orð sem ég mundi nota til að lýsa Sveini Yngva.

Skíðabrekka snemma morguns.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.