Livigno. Með hægð

Ég bruna hratt niður skíðabrekkurnar hér í Livigno. Stundum svo hratt að ég verð sjálfur að minna mig á að fara varlega. Skíðafærið er svo gott og ekki margir í þessum fínu, breiðu skíðabrekkum svo ég bruna.

Þótt ég geisi niður brekkurnar er ég smám saman og æ oftar – kannski með aldrinum – farinn að dásama hugtakið með hægð. Ég hef alltaf frekar hallast að því hraða, því fljóta, því snögga. Ég hef dásamað þá sem eru snöggir að taka ákvarðanir, þá sem eru fljótir að lesa upplýsingar, þá sem eru generalt hraðir. Mér hefur alltaf leiðst fólk sem er lengi að öllu. En nú finnst mér til dæmis ekkert betra en að taka morgnunum með hægð; dunda mér við að hella upp á kaffi, gefa mér tíma til að lesa blöðin, gefa mér tíma til að drekka morgunkaffið.

Stundum finnst mér gott að vera hægur. Að gefa hlutunum tíma, að þurfa ekki að flýta sér. En mér finnst munur á því að gera hlutina hægt og yfirvegað og þegar fólk er hægt vegna þess að það slugsar, einbeitir sér ekki og er almennt slappt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.