Espergærde. Cobain og Nixon

Vika í fjöllunum … í ítölsku Ölpunum … að baki, og svo er ég hér; á Søbækvej. Morgunkaffið er orðið kalt í bollanum fyrir framan mig. Ég renni í gegnum dagblöð síðustu viku og dáist að íslensku tréfuglunum sem standa á borðinu: kría, lóa og jaðraka. Bráðum ætla ég út að ganga og ætli ég hlusti ekki á Lestina, útvarpsþáttinn. Mig dreymdi nefnilega Eirík Guðmundsson í nótt. Honum fannst ég einmana, en þar skjátlaðist honum því ég er sjaldan einmana. En ég ætla að hlusta á þáttinn hans á göngunni í dag. Fyrst hann vitjar mín í draumi er eitthvað sem hann vill segja mér. Ég hef ákveðið að hlusta og reyna að fá botn í hvaða erindi hann á við mig.

Ég les þrjár bækur í einu um þessar mundir: kafli á dag í bókinni hans Johans Harstad. Ég er búinn að vera lengi með þessa bók enda er hún 1600 síður. Svo var ég að byrja á bók hinnar tyrknesk-amerísku Elif Batuman, The Idiot. Þriðja bókin sem ég er að lesa er bókin Lad os håbe det bedste (á dönsku) eftir sænsku skáldkonuna Carolinu Setterwall. Carolina kemur víst fljótlega út á íslensku hjá forlaginu Benedikt og ég held að ég muni rétt að hún verði gestur bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík í apríl. Ég sá þó ekkert um það á heimasíðu bókmenntahátíðarinnar.

Bæði bókin hans Johans og Batuman gerast á árunum 1994 til 1995. Ég man eftir árinu 1994. Það ár dóu bæði Nixon og Kurt Cobain. Milli þess að Kurt dó og þar til Nixon dó liðu 17 dagar. Engin tengsl eru þó milli dauða þessara tveggja. Nixon dó þann 22. apríl. Daginn eftir hélt Halldór Laxness upp á 92 ára afmælisdaginn sinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.