Ég hef lengi haft mikla vantrú á karlmönnum með doughnut-skegg allt síðan einn af þýðendum mínum, eldri herramaður, varaði mig við mönnum með slíkan hárvöxt í andlitinu. Ég trúði honum. Í skíðferðalaginu í síðustu viku varð ég fyrir barðinu á hálfóheiðarlegum manni sem reyndist vera hafa látið vaxa sér dougnut-skegg. Atvikið var í sjálfu sér ekki alvarlegt og ekkert til að gera veður út af en ég benti Lars, sem var ferðafélagi minn í skíðferðinni, á þá staðreynd að maður ætti að passa sig á karlmönnum sem létu skegg vaxa í kringum munninn, þeim væri ekki treystandi. Ég sá að það kom sérkennilegur svipur á Lars svo ég spurði hvort hann tryði mér ekki.
„Jú … ja … ég veit ekki hvort þetta sé rétt. Pabbi minn er með svona skegg og hefur alltaf verið.“
Ég hikaði en sagði svo: „Já, hann er þá undantekningin.“
En þetta vakti mig til umhugsunar því það er ekki í eðli mínu að dæma ákveðinn flokk fólks og setja undir einn hatt; hvorki síðhærða, kínverska, nefstóra, rauðhærða, miðaldra … Hvað átti þá að þýða að dæma alla karlmenn með dougnut-skegg! Ég er að eðlisfari tortrygginn og fer varlega þegar ég hitti fólk, alls konar fólk; svarta, hvíta, gula, rauða … Ég hef þó reynt að temja mér, að vísu með lökum árangri, mottóið: Óttastu ekki, trúðu. En að dæma allt fólk með ákveðinn skeggvöxt er mér ekki sæmandi, nú hef ég lært það.