Espergærde. Mitt Baldyfjall

Ég hef undanfarna daga hlakkað til að takast á við lítið verkefni sem ég fékk hér í Danmörku. Mér er ætluð vika til að leysa verkefnið og ég hef hugsað um það á leiðinni niður skíðabrekkurnar í Ítalíu. Nú er mánudagur, mánudagsmorgunn, og Sus fór af stað í birtingu með vinkonum sínum til Borgundarhólms en við drengir verðum einir heima næstu daga.

Þegar Númi og Daf voru farnir í skólann rétt fyrir klukkan átta settist ég niður í eldhúsinu til að hefjast handa. Ég ákvað að vinna heima í dag þar sem hér verður friður og ró alveg fram til klukkan þrjú. Ég lagði pappírana á borðið og virti fyrir mér orðin sem voru skrifuð á verkefnablöðin. Já, hugsaði ég, hvernig á ég að tækla þetta … ég byrja á að hella sér upp á meira kaffi, hugsaði ég.

Ég setti kaffivélina í gang, opnaði ísskápinn á meðan ég beið eftir kaffinu. Þar rak ég augun í ost og datt í hug að fá mér hrökkbrauð með þessum fína osti sem starði á mig úr ísskápshillunni. Ég tók fram disk og ostaskera, smurði hrökkbrauðið um leið og kaffið rann í bollann minn. Á meðan ég dundaði mér við að skera ostinn ofan á hrökkbrauðið mundi ég allt í einu eftir bók sem ég hafði lofað að lesa, bókina þurfti ég að prenta út. Ég settist niður – geymdi kaffið og hrökkbrauðið – og fann bókina í tölvunni minni, opnaði skjalið og setti prentunina í gang. Ég varð að muna að lesa bókina í kvöld, hugsaði ég. Frá litla herberginu með prentaranum heyrði ég að prentunin var farin af stað. Ég gekk inn í herbergið og tók fyrstu blöðin út úr prentaranum og áður en ég vissi af byrjaði ég að lesa bókina, standandi við prentarann.

Eitthvað í útprentinu minnti mig á Carolinu Setterwall (ég er að lesa bók eftir þessa sænsku skáldkonu) ég lagði því pappírana frá mér á eldhúseyjuna við hlið disksins með hrökkbrauðinu og settist aftur við tölvuna til að finna bloggið hennar Carolinu sem einhver hafði sagt mér frá. Ég las fyrstu færslurnar en ákvað síðan að ég skyldi ekki eyða tímanum í bloggið, svo ég stóð upp aftur og tók pappírana með útprentinu og byrjaði aftur að lesa um leið og ég mokaði í mig hrökkbrauðinu (standandi við eldhúseyjuna) og skolaði því niður með kaffinu. Hrökkbrauðið hvarf hratt ofan í mig og ég settist aftur niður … og skyndilega langaði mig að heyra The Thrill is Gone með BB King og svo fékk ég áhuga á að heyra Chet Baker útgáfu með laginu og enn aðra með Tracy Chapman og BB King … tíminn leið … og allt þetta þurfti að gerast áður en ég settist við verkefnið sem ég hafði í raun hlakkað til að byrja á alla helgina. En það er eitthvað í mér sem vill endalaust fresta því að takast á við þetta fína verkefni.

Mig dreymir um að sökkva mig niður í fullkomna einbeitingu, fara á bólakaf og vita hvorki í þennan heim né annan, vera eitt með því sem ég vinn að; tími fullkominnar einbeitingar, eins og árin tvö í zen-klaustrinu á Baldyfjalli voru fyrir Leonard Cohen, í stað þess að þjóta á milli, hrökkbrauðs, prentara, bloggs skáldkonu frá Svíþjóð, ísskáps …

En nú er ég sem sagt sestur við mína eigin dagbók. Í hægra horni tölvunnar minnar sé ég að ég hef fengið tölvupóst sem mig dauðlangar til að lesa og ég hef núna ákveðið að um leið og ég set lokapunkt á dagbókarfærslu dagsins muni ég lesa þennan tölvupóst og síðan muni ég sökkva mér niður á hyldýpi litla verkefnis míns. (Verkefnið hljómar eins og eitthvað gífurlega mikilvægt og krefjandi en það er bara einfalt handavinnuverkefni sem ég ætti að geta leyst á tveimur dögum ef ég er fullkomlega einbeittur.)

ps. Ég náði ekki alveg að halda mig við áætlunina um að hefjast handa strax og ég hafði lesið tölvupóstinn því ég sá út um gluggann hér í eldhúsinu að birtan í austri var svo falleg. Ég ákvað að hlaupa upp á svalir og taka mynd (sjá myndina að ofan). En nú sest ég niður og einbeiti mér. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.