Espergærde. Tvær útgáfur

Í gær sat ég heima allan daginn yfir tölvunni minni og reyndi að gera eitthvað gagn – ég sat að vísu ekki alveg allan daginn heima því ég fór út til kjötkaupmannsins og út í nýlenduvöruverslunina til að kaupa í matinn. Því miður verð ég að viðurkenna að ég var ekki alveg ánægður með mig í gær því einbeitingin átti til að bregðast mér og ég datt ofan í eitthvað annað en ég hafði ætlað mér að gera.

Ég fór meðal annars að bera saman tvær mismundandi upptökur Glenn Gould, kanadíska píanóleikarans frá Toronto, á hinum frægu Goldbergvariationum. Glenn Gould, eða maðurinn sem hataði kulda, (hann spilaði alltaf í yfirhöfnunum) gaf út hljómplötu með flutningi sínum á Goldbergvaritionunum árið 1955 þegar hann var aðeins 22 ára. Árið 1981, eða 26 árum síðar og ári áður en píanistinn dó, tók hann verkið upp aftur. Seinni flutningurinn tekur mun lengri tíma en sá fyrri og hefur allt annan karakter; tregafyllri og lipurri. Þar er líka raulið í honum, sem hann varð þekktur fyrir (þ.e. að raula með þegar hann spilaði á píanóið), miklu greinilegra.

Ég veit ekki af hverju ég fór að eyða tímanum í þetta dútl þegar ég átti að leysa önnur verkefni. Glenn Gould, með sína lélegu líkamsstöðu, vakti bara skyndilega áhuga minn.

p.s. Glenn Gould þoldi ekki snertingu, hann þoldi ekki annað fólk. Óbeit hans á líkömum annarra gekk svo langt að eitt sinn þegar píanóstillingamaður heilsaði honum í ógáti með því að klappa honum á öxlina brást Gould hinn versti við; bæði með sjokki og viðbjóði. Síðar kvartaði undan verkjum í öxlinni og sagðist vera í vandræðum með fínhreyfingar eftir „árásina“. Hann kannaði meira að segja hvort hann hefði möguleika á að ákæra píanóstillingarmanninn. Þetta var um Glenn Gould.

pps. Annars dreymdi mig Steinar Braga, skáldið, í nótt og það á ég erfitt með að skilja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.