Það rignir í Espergærde í dag og í fyrsta skipti í vikunni mæti ég á skrifstofuna mína. Sus kom í gær úr Borgundarhólmsleiðangri sínum. Ég hef því ekki húsið fyrir sjálfan mig á daginn.
Rigningin er svo þung í dag að verkamennirnir í byggingunni hér við hliðina eru allir klæddir í regngalla frá toppi til táar. Þeir híma eins og þeim sé kalt og byggingarkranarnir eru kyrrir þótt ljósin logi í stýrishúsunum; ekkert til að hífa í dag. Kannski er allt alltof blautt.
Maðurinn sem ég mætti í morgun á leið minni til skrifstofunnar situr enn í mér. Ég hef ekki séð þennan óhrjálega og lufsulega mann fyrr, en það er eins og hann eigi heima hérna í litlu húsi við Gylfesvej (sama gata og skrifstofan). Hann sat að minnsta kosti á bekk undir húsvegg og útidyr stóðu opnar. Hann hafði farið úr skóm og sokkum á öðrum fæti. Skórnir lágu við fætur hans og sokknum hafði hann stungið ofan í skóinn. Ég hef aldrei séð jafnskítugan fót á ævi minni og ég fylgdist með honum hella einhverju sem líktist terpentína eða bensín í tvist og þurrkaði svo svartan skítinn af fótunum með bensínmettuðum tvistinum. Mér fannst ég finna megna táfýlu yfirgnæfa skarpa og kemíska bensínlyktina. Fnykurinn barst alla leið yfir til mín þar sem ég gekk á gangstéttinni hinum megin götunnar. Mig hryllti við þessari sjón og þessari ólykt.
ps. ég er sennilega búinn að drekka alltof mikið kaffi í morgun því mig hálfsvimar. Ef ég ligg í gólfinu eftir lokun skrifstofunnar er kaffidrykkja skýringin.
pps. nú held ég áfram að vinna. Yo!