Ég klára mitt litla verkefni í dag og á mánudag byrja ég aftur á þýðingunni minni sem ég hef vanrækt í tvær vikur. Fyrst ein vika á skíðum og svo ein vika helguð öðru verkefni hér í Danmörku. Nú verð ég að hafa hraðar hendur við þýðinguna í næstu viku. Allt mitt vinnulíf er tilbúið kapphlaup við tímann.
Ég hitti manninn með hundinn í morgun á leið til vinnu. Nú er bjart þegar ég geng af stað þótt klukkan sé ekki orðin átta. Það er langt síðan við höfum rekist hvor á annan, ég og maðurinn með hundinn. Ég sá hann koma gangandi upp Bakkegårdsvej og furðaði mig á að hann hafði ekki rakkann með sér eins og venjulega en svo mundi ég að hann hafði skilað hundinum. (Hvert, veit ég ekki). Hann veifaði mér ákaft og ég sá að hann vildi eiga við mig orð svo ég hinkraði þótt ég væri eiginlega að flýta mér (mitt tilbúna tímakapphlaup).
Í ljós kom að hann átti ekki neitt sérstakt erindi eins og ég hafði túlkað út frá ákafanum þegar hann veifaði. Hann vildi bara heilsa. En ég man ekki af hverju við byrjuðum að tala um „góðfúslegt leyfi“. En ég minntist á eitthvað sem ég hafði fengið góðfúslegt leyfi til að nota.
„Góðfúslegt leyfi,“ fussaði Peter, fyrrum hundeigandi. „Það er ekkert til sem heitir góðfúslegt leyfi!“
„Af hverju segir þú það?“ spurði ég hissa á þessari skyndilegu og harkalegu yfirlýsingu.
„Af því að ég veit það. Það er ekkert sem heitir góðfúslegt leyfi. Þú átt eftir að greiða fyrir þetta leyfi fyrr eða síðar. Og gjaldið verður í engu samræmi við raunverulegt gjald. Miklu hærra.“
„Við skulum ekki þreytast á að gera það sem gott er því á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp.“
„Haha, æ, hvað þú ert heimskur! Sjáumst!“
Og svo gekk hann áfram upp Bakkegårdsvejen.
ps. Það er alger kyrrstaða í byggingarframkvæmdunum hér handan götunnar. Kannski hafa allir verkamennirnir kvefast í úrhellinu í gær og ákveðið að vera heima á föstudegi.

pps Ég hef lúmskt gaman af því að þvo mér um hendurnar hér á skrifstofunni því sápan hér ilmar af gervikarlmennsku. Ég lykta aldrei af öðru en sjálfum mér en hér er sápan full af ilmefnum svo ég er eins og annar maður, lyktandi af sterkri gervikarlmennsku. Þetta er eins og að fljúga á buisnessclass án þess að eiga efni á því. Nýi vinur minn hér á skrifstofunni, lyktar upp úr og niðurúr af rakspíra og sápu.