Espergærde. Leiðindi, nei takk

Ég hef verið inni í Kaupmannahöfn í dag á svokallaðri menningarferð, en menningarferðir okkar snúast oftast um að skoða arkitektúr í Kaupmannahöfn með Óla arkitekt. Í dag heimsóttum við (með Óla arkitekt og Tinu) Skuespilhuset (Þjóðleikhús Danmerkur) sem var vígt árið 2007. Sérstakur sérfræðingur um bygginguna tók á móti okkur og leiddi um húsið. Þetta eru skemmtilegar ferðir, menningarferðirnar, og heimsóknin í leikhúsið í dag var mjög góð.

Ég las áðan um vinsælasta blogg Íslands, eða kannski það hafi verið vinsælast því ég sá að nýjasta færslan var frá miðju síðasta ári. Ég renndi yfir nokkrar færslur en fannst skrifin svo leiðinleg að mér hálfbrá og fór að hafa áhyggjur af því að ég birti jafnleiðinlega dagbók. Þá er betra að loka Kaktusnum.

Á morgun þarf ég að fara, annan daginn í röð, inn í bæ, Kaupmannahöfn, þar sem ég á fund með fulltrúa Politiken forlagsins. Ég hlakka til að heyra sögur úr útgáfubransanum en ætli þess sé ekki vænst að ég segi frá því helsta sem gerist í íslenskum bókmenntum. Ég verð þó að taka fram að ég er ekkert sérlega ánægður með að missa úr hálfan vinnudag.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.