Espergærde. Hinn nýi vinur minn

Enn einn mánudagur. Enn ein helgin að baki og enn einn dagur á skrifstofu yfir tölvuskjá. Ég er ekki að kvarta, mér finnst mánudagar fínir dagar og verkefnin mín kalla á mig. Ég hef það gott.

Nýi vinur minn, eins og fjölskyldan mín kallar manninn sem vinnur hér á sömu skrifstofu, hefur fyllt ísskápinn. Hér eru tveir ísskápar; einn fyrir vín og hann er fullur af hvítvíni, kampavíni, rósavíni og rauðvíni og svo er annar fyrir matvörur sem er fullur af alls konar kjötáleggi, osti, bjór, gosdrykkjum og einhverjum matvörum sem ég þekki ekki nógu vel til að lýsa. Svo eru skyndilega komnar tvær skálar á eldhúsborðið; önnur með eplum og sítrónum og hin með rauðri paprikku. Ég veit ekki hvenær hann borðar allan þennan mat og drekkur allt þetta vín en þetta hverfur allt smám saman, sennilega ofan í maga nýja vinar míns. Svo fyllir hann aftur upp. Nýi vinur minn hefur alltaf eitthvað upp í munninum sem hann tyggur og það er ekki tyggigúmmí heldur eru það oft hnetur, paprikka, brauð með áleggi eða gulrætur. Stundum fer ég að hugsa um jórturdýr þegar ég heyri hann tyggja eitthvað. En hann fer hálfleynt með að hann borði. Ég sé sjaldan mat á borðinu en ég heyri að hann jórtrar á meðan hann situr fyrir framan tölvuskjáinn.

Ég og nýi vinur minn á skrifstofunni tölum ekki mikið saman. Hann er mjög vinsamlegur og ég er líka vinsamlegur en við segjum ekki svo margt hvor við annan. Ég lækka tónlistina þegar hann byrjar vinnudaginn sem er oftast rétt fyrir klukkan tólf. En hann segir að ég geti alveg spilað eins mikla tónlist og eins hátt og ég vilji, en ég lækka samt svo hann heyri ekki óminn af tónlistinni frá hátalaranum hér á borðinu.

Í dag vinn ég bara til klukkan hálftólf, svo það er ekki víst að ég hitti nýja vin minn í dag. Ég þarf að fara til Kaupmannahafnar og tek lestina klukkan 11:45.

Nýju hollustuskálarnar inni á skrifstofueldhúsinu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.