Ég hafði verið inni í Kaupmannahöfn í gær og nú gekk ég heim á leið. Það var mánudagssíðdegi, lestin frá Kaupmannahöfn hafði verið á áætlun og ekið hnökralaust eftir járnbrautarlínunni frá höfuðstaðnum norður til Espergærde. Ferðin tekur 35 mínútur og mér líður oftast vel á ferð með járnbrautarlest. Meðferðis hafði ég poka með fimm bókum sem ég hafði keypt í Arnold Busck bókabúðinni við Købmagerstræde þótt erindi mitt hafi alls ekki verið að kaupa bækur. Þetta var létt byrði því bækurnar voru ekki sérlega þykkar.
Þegar ég kom að húsinu mínu, eftir tæplega fimmtán mínútna göngu frá lestarstöðinni í Espergærde, ákvað ég að fara út í garðinn bak við hús og sjá hvernig hindberjatrén mín höfðu það eftir veturinn. Sennilega hafði vorveðrið minnt mig á trén, en það var hlýtt og sólin skein. Ég gekk umhverfis húsið og baukaði eitthvað við að binda trén aðeins upp. Mér fannst ég skyndilega svo þreyttur svo ég gekk aftur til baka og settist á næstefstu tröppuna fyrir framan aðalinnganginn. Ég hugsaði: Það er hvort eð er enginn heima.
Augnabliki síðar heyrði ég að útihurðin bak við mig var opnuð og Númi sagði: „Siturðu þarna?“
Ég stóð á fætur og sagði: „Ég hélt að það væri enginn heima.“
„Við vorum að koma,“ sagði Númi.
„Við?“ sagði ég.
„Ég og Tobias,“ sagði hann.
„Við Tobias,“ sagði ég.
„Við Tobias,“ sagði hann.

