Espergærde. Fótgönguliðar fyrir framan frostkælinn (4xf)

Maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til reiði. Þetta lærði ég ungur. Ég segi þetta hér því í verslunarferð minni í gær var ég fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til reiði þótt ég hefði tilefni til að brjóta þessa góðu reglu. En það var annar fyrri til.

Í versluninni eru ung hjón, og það mátti kannski reikna út frá háttalegi þeirra og af „einkennisbúningnum“ sem þau báru, að hér voru á ferðinni ungir fótgönguliðar hinnar svokölluð identitets pólitíkur sem er númer eitt á metsölulistanum í dag. Mér kemur að sjálfsögðu ekki við hvernig fólk hagar lífi sínu en ég verð satt að segja töluvert fúll yfir þeirri skelfilegu hræsni sem felst í þessari afstöðu. Ég er! Eða frekar hvað er ég fyrir öðrum.

Senan gengur út á mjólkurkaup fjölskyldunnar. Unga fólkið stendur fyrir framan mjólkurkælinn og ungi maðurinn tekur „vistvæna“ mjólk og setur í innkaupakörfuna.
„Hva … af hverju tekurðu mjólk?“ spyr unga stúlkan og það má greina hneykslan í rödd hennar.
Ungi maðurinn fer strax í vörn: „Það vantar mjólk … ?“
„Taktu þá sojamjólkina.“
„Sojamjólkina? Nú af hverju sojamjólk … er það …“
„Þú veist að beljur eru mestu CO2 skaðvaldar heims.“
„Aaaa … það er nú ekki …“
„Við tökum sojamjólk …“
„Sojabaunir eru ræktaðar í Brasilíu … það þarf að fljúga alla leið hingað …“
„Við kaupum ekki kúmjólk … við förum ekki að styrk …“
„Ég meina … þeir útrýma regnskógum Brasilíu fyrir sojaakra svo við hér vistvæna fólkið getum fengið vistvæna mjólk í kaffið okkar …“ ungi maðurinn hafði gleymt reglunni að vera seinn til reiði því hann var sannarlega reiður eða minnsta kosti pirraður út í sína ungu, elskulegu náttúruverndarkonu. Hann hvæsti og leit svo flóttalegur á mig sem beið þess að komast að mjólkurkælinum.
„Taktu bara sojamjólkina, ég læt ekki sjá mig með kúamjólk … helvítis bændur …“ hvæsti unga konan á móti og var líka orðin reið. Þau voru bæði reið fyrir framan mjólkurkælinn og ungi maðurinn í uppgjöf sinni tók sojamjólk og lét harkalega í innkaupakörfuna. Enginn var ánægður fyrir framan kælinn.

„Siðblinda eða hræsni. Þitt er valið,“ sagði ég lágt við unga manninn þegar ég mjakaði mér fram hjá honum.
„Hvað segirðu?“ hann horfði spyrjandi á mig og ekki sérlega vinsamlega.
„Ég sagði bara, vel valið …“

Það er miðvikudagur í dag, 58 dagur ársins. Bara 307 dagar eftir af árinu 2019 og enn er ég á leið inn til Kaupmannahafnar á þessum fimmtugasta og áttunda degi ársins 2019. Það mætti halda að ég væri í vinnu. Fundur í Kaupmannahöfn og sá annar í einni og sömu vikunni. En ég vel vistvænan ferðamáta, raflestin brunar eftir teinunum í átt til Kaupmannahafnar klukkan 11:05. (Það er verra að ég veit að rafkerfi lestarkerfisins er að mestu knúið áfram með kolabrennslu (kolin koma víst frá Austur-Evrópu með olíuknúnum farartækjum.)) Auðvitað ætti ég bara að ganga eða hjóla; ekki get ég tekið hestinn því CO2 spúandi dýri.

Staða byggingarinnar við hliðina á skrifstofunni: Myndin til vinstri frá því í gær og sú til hægri er frá því í morgun. Með samanburði á myndunum má sjá að ein ný hæð hefur risið frá því í gær. Það er sú þriðja, hæðin sem er efst í byggingunni. Það er sú hæð sem reis í gær.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.