Espergærde. Ég hlusta ekki á skæting.

Ég hafði vart tekið síðasta sopann úr kaffibollanum þegar ungt par kom askvaðandi og spurði hvort sætið væri laust. Það kom á mig hik því ég hafði í sannleika sagt ætlað mér að sitja aðeins lengur – þótt ég hefði lokið við að borða veitingarnar – og horfa bara aðeins út um gluggann. Það var notalegt innan dyra og útsýnið frá glugganum mínum þótti mér fallegt; smábátar sem vögguðu við bryggju og nokkrir menn að störfum. Ég leit upp, á unga parið og aðeins í kringum mig, á borðin og inn í salinn og sá að veitingastaðurinn var þéttsetinn og hvergi laust sæti að sjá. Það var skýringin á ákafa unga parsins. Ég segi parsins, þótt ég viti ekkert um samband þessara tveggja einstaklinga; ungs karlmanns og ungrar konu, hvort ást hefði einhvern tíma kviknað á milli þeirra eða hvort hvort samband þeirra væri knúið áfram af sameiginlegum markmiðum.

Ungi maðurinn, sem hafði orð fyrir þeim, hafði falleg augu. Ég tók eftir því. Unga konan var aftur á móti það sem maður kannski kallar ófríð og ólöguleg. Hún var nokkuð þybbin, með lítil, sviplaus augu, hárið var dregið til baka í einskonar hálfhnút í hnakkanum. Hún var klædd í vítt pils og litríka mussu. Hún hélt sig til hlés á meðan ungi maðurinn reyndi að lokka mig upp úr sætinu.
„Rétt strax,“ sagði ég. „Sætið er laust rétt strax, ég ætla bara að klára kaffið mitt.“ Þetta sagði ég þótt ekkert kaffi væri lengur í bollanum mínum. Ég hafði þörf fyrir umhugsunarfrest og ég var einhvern veginn ekki alveg tilbúinn til að standa upp og yfirgefa staðinn. Ungi maðurinn kinkaði kolli og gerði sig líklegan til að snúa aftur til móttökurýmis veitingahússins þegar unga konan í mussunni steig fram og sagði á fremur óþægilegan hátt: „En þú ert búinn með kaffið þitt.“ Á mig kom nokkuð fát og ég lyfti kaffibollanum í átt að vörum mér. En áður en ég fékk mér sopa úr tómum kaffibollanum sagði ég: „Nei, það er einn sopi eftir.“ Ég hlusta ekki á skæting.

ps. Á leið minni til vinnu í morgun varð mér hugsað til nokkurra einstaklinga: Kjell Askildsen, Håkan Nesser, André Previn, Jóns Kalmans Stefánssonar, Astrid Lindgren, Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Auðar Jónsdóttur, Jóns Kaldal, Dags Kára Péturssonar, Péturs Márs Ólafssonar, Jørn Lier Holst, Ingunnar Snædal, Hallgríms Helgasonar, Kolbrúnar Bergþórsdóttur, Sigurðar Valgeirssonar, Stefáns Sigurðssonar, Rögnu Söru Jónsdóttur, Öglu Magnúsdóttur, Maríu Rán Guðjónsdóttur. (Ég gat rifjaði upp hugsanakeðju sem hófst við Søbækvej 12 og lauk þegar ég sneri lyklinum hér við skrifstofudyrnar.)

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.