Espergærde. Hvers vegna TMM?

Það lá þoka yfir smábænum mínum þegar ég vaknaði í morgun. Kannski var það táknrænt fyrir mitt eigið ástand því ég vaknaði í hálfgerðri þoku. Ég hafði sofið órólega, dreymt Diddu systur mína og ég veit ekki betur en mér hafi verið illt í maganum. Þannig var að minnsta kosti minningin um nóttina þegar ég vaknaði.

Ég var fyrstur á fætur hér í húsinu og allt mitt ástand var svo þjakað af vondum draumum, hugsanlegri magapínu og þoku sálarinnar að ég ákvað að ganga út og niður að sjó; ganga í gegnum þokumistrið sem grúfði yfir mér og bænum. Til að undirstrika eymdina bárust frá sundinu djúp og einmannaleg flaut þokulúðra.

Ég veit ekki hvað dró mig svona niður, hvers vegna ég var svona niðurdreginn strax í morgunsárið. Það er ekki mér líkt. En ég segi það strax, svo enginn fari nú að hafa áhyggjur, að ég hresstist á göngunni.

Kannski var ein af ástæðum deyfðar minnar að mér varð hugsað til þess að í gærkvöldi fletti ég upp á heimasíðu hins fornfræga tímarits TMM. Ég hafði ætlað mér að lesa ritdóm Silju Aðalsteinsdóttur um nýtt leikriti Friðgeirs Einarssonar en af einhverjum undarlegum ástæðum er þessum ritdómi Silju komið fyrir inn á þessari, að því virðist, fyrir löngu látnu vefsíðu. Þetta er sorgleg heimasíða, heimasíða TMM. Ef maður til dæmis klikkar á borðann „Nýtt TMM komið út“ birtist mynd og efnislýsing á tímaritshefti frá árinu 2012. Ef maður fer inn undir efnisflokknum „Á líðandi stundu“ lendir maður t.d. á grein eftir Einar Már Jónsson frá október 2016.

Prentuð tímarit eru víst tímaskekkja. Tímarit höfðu það hlutverk að birta það nýjasta, vera með fingurinn á púlsinum, greina strauma og stefnur, uppgötva hið nýja og ferska og miðla því. Þannig var skilgreining á tímariti. Á upphafsárum tímaritaútgáfu leið tíminn hægt svo slík rit áttu möguleika á því að vera lifandi vettvangur. En nú þegar tíminn geysist áfram af slíkum ofurhraða er útgáfuferill prentaðs tímarits of langur. Það sem er nýtt efni, þegar ritstjórn ákveður að birta það í tímariti sínu, er orðið að gamalli lummu þegar tímaritið loks kemur úr prentun.

Á heimasíðu sinni hefur ritstjórnin að minnsta kosti möguleika á að vera lifandi, bregðast hratt við, og halda lífi í bókmenntunum og bókmenntaumræðu. Rækta hlutverk sitt sem hinn ferski, metnaðarfulli miðill. Því er kannski enn sorglegra að sjá vefsíðu metnaðarfulls tímarits svona gersamlega líflausa; löngu látna. En ég get staðfest að heimasíðan er dáin; enginn púls. Kannski hef ég misskilið eitthvað; TMM er kannski ekki lengur metnaðarfull tímaritaútgáfa, kannski er bara verið að halda lífi í einhverju sem er dáið fyrir mörgum árum. Ef til vill eru bara misskildar tilfinningaástæður sem halda lífi í þessu prentaða tímariti? Líkið af heimasíðunni hefur að minnsta kosti legið svo lengi á opinberum vettvangi, öllum sýnilegt, að sterk og niðurdrepandi rotnunarlykt berst frá því. Það er enginn sómi að koma svona fram við lík. Manni ber að jarða og ganga fallega frá hinum látna. Láta hann hverfa ofan í jörðina og setja litrík blóm á leiðið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.