Espergærde. Að halda dyrum opnum í hálfa gátt.

Þetta hefur verið hálfundarlegur dagur; óvenju heitt er í veðri og bjart. Skrifstofan mín verður ansi molluleg þegar sólin skín inn í gegnum stóru skrifstofugluggana svo ég ákvað eftir stutta setu við skrifborðið að ganga út. Úti á torgi hér hundrað metrum neðar á götunni er kaffistétt sem var opin. Þar var setið við nokkur borð í sólinni. Ég fékk mér sæti við eitt af hringlaga borðunum og pantaði kaffi. Á norðurhimninum voru hvítir skýjahnoðrar sem stefndu í áttina til mín.

Kaffið kom fljótt. Þegar ég tók bréfið utan af litla súkkulaðistykkinu, sem ítölsku kaffigerðarmennirnir hérna í bænum bera fram með kaffinu, tók ég eftir að rauðhærði náunginn gekk enn einu sinni framhjá, og í þetta sinn lét ég ekki sem ég sæi hann ekki; ég veit ekki af hverju, en þessi náungi vekur ekki áhuga minn, það er ég viss um. Það er kannski ekkert annað eftirtektarvert við hann en, og segi bara kannski, því það í sjálfu sér var ekkert sérlega eftirtektarvert, að þetta var í þriðja sinn sem hann átti leið framhjá mér þennan morgun.

Ef hann birtist enn einu sinni, hugsaði ég.

Ég sat kyrr og fylgdist með nokkrum krákum fljúga í hringi yfir höfðinu á mér. Krákurnar eru hér af því að við (ég og krákurnar) erum rétt hjá kirkjunni, hugsaði ég. Ég lokaði augunum, fann litla súkkulaðistykkið bráðna undir tungunni og sneri andlitinu upp í sólina. Ég opnaði augun aftur eftir stutta stund – ég sofnaði ekki – og sá að rauðhærði maðurinn gekk aftur framhjá, í fjórða sinn. Það vakti athygli mína að hann kom úr sömu átt og síðasta. Mér fannst það skrýtið. Gat verið að hann hafi gegnið í hina áttina þegar ég sat með augun lokuð? Var þetta í fimmta sinn sem hann spásseraði fram hjá mér?

Ég tók upp símann minn því ég hafði fengið tvo tölvupósta í gærkvöldi sem ég hafði ákveðið að bíða með að svara. Nú var kominn tími til að bregðast við erindum þessara tveggja manna sem voru svo góðir að senda mér tölvubréf. Bæði komu erindin úr óvæntri átt; annað frá Suður-Evrópu (ég veit ekki hvort maðurinn er þar í fríi eða hvort hann er þar búsettur, en hann tók fram í upphafi bréfsins til mín að hann skrifaði frá ákveðnum stað í Suður-Evrópu). Í bréfinu bendir hann mér á grein sem birtist í útlendu tímariti og segir að slíka grein, og aðrar sambærilegar, mundi hann gjarnan vilja sjá á íslensku og aðgengilegar fyrir íslenska lesendur. Vildi ég ekki vera svo góður að endurlífga veftímarit um bókmenntir, sem hann taldi mig á einhvern hátt stýra, og birta á íslensku þessa greina og sambærilegar? Ég hugsaði mig um og velti fyrir mér hverju ég skyldi svara manninum því það lá ekki í augum uppi. Í þessari einbeittu íhugun varð mér litið upp og sá enn á ný rauðhærða manninn. Hann stóð nú undir vegg handan götunnar og átti í samtali við karl og konu (ég held að þau séu fasteignasalar). Það var eiginlega bara konan sem talaði, karlarnir tveir, sá rauðhærði og fasteignasalinn (sem er ljóshærður) kinkuðu samþykkjandi kolli yfir einhverju sem konan sagði. Af hverju sveimar þessi maður í kringum mig eins og hrægammur? hugsaði ég.

Ég ákvað að svara fyrst bréfi mannsins frá Suður-Evrópu. Ég opnaði póstforritið í símanum mínum (ég á síma þar sem hægt er að taka á móti tölvupósti og senda. Ég get líka tekið myndir með þessum sama síma). Svarið var stutt og í rauninni sagði ég einungis að ég hefði lesið bréfið hans. Mörg ólík svör höfðu farið í gegnum huga minn en ég var ákaflega tvístígandi; sennilega af því að svarmöguleikarnir voru of margir.

Hitt bréfið sem ég svaraði líka kom frá Kaupmannahöfn og yfir því var einhver furðuleg léttúð. Maðurinn sem skrifaði mér hefur áður verið í sambandi við mig (fyrir nokkrum mánuðum) vildi fá mig til að taka þátt í verkefni sem hann hefur stýrt með ótrúlega góðum árangri síðastliðin fjögur ár. Ég ákvað að halda dyrunum á milli okkar opnum í hálfa gátt. En hvað allt er eitthvað hálfvolgt hjá mér í dag, hugsaði ég, en það er mikilvægt að svara fólki sem sendir manni bréf og fyrirspurnir. Annað er dónaskapur.

ps. Ég var í Horsens á Jótlandi í gær og átti erindi á verslunargötu bæjarins. Þar var margt um manninn. En allt í einu taldi ég mig sjá Guðmund Andra Thorsson á gangi eftir þessari göngugötu á Jótlandi (breiðustu göngugötu Danmerkur). Ég var að því kominn að heilsa upp á manninn þegar ég uppgötvaði að þetta var alls ekki Guðmundur Andri.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.