Espergærde. Hinir feimnu og hinir upplitsdjörfu

Ég fékk senda blaðaúrklippu í morgun úr Fréttablaðinu. Þetta er grein af menningarsíðu blaðsins. Kolbrún Bergþórsdóttir hefur skrifað um ungt fólk sem hefur stofnað bókaforlag og kallað forlagið sitt Unu. Í greininni segir að stofnendurnir séu fjórmenningar sem hafa stundað háskólanám í heimspeki og bókmenntum og svo er stutt viðtal við ungmennin. Að vísu er bara mynd af þremur af stofnendunum; tveimur drengjum með feimnislegan svip og ungri stúlku sem er eilítið upplitsdjarfari. Ég vona að þeim takist að halda lífi í forlaginu sínu.

Ég var þrítugsaldri, sennilega tuttugu og sjö ára, þegar ég stofnaði bókaforlag á sínum tíma. Ég valdi nafnið Bjartur fyrir starfsemina og það nafn hafði í rauninni nokkuð djúpar rætur í sjálfum mér; löngun mína til að standa á eigin fótum, vera sjálfstæður maður og skulda ekki neinum neitt. En ég var líka feiminn og ég held að ég hafi ekki sagt neinum að ég hefði stofnað forlag fyrr en ég hafði gefið út bækur í meira en tvö ár. Mér fannst ég á einhvern hátt ekki þess verður að gefa út bækur. Svona var nú sjálfsálit þessa unga þriggja barna föður. En ég gerði það samt, læddist til þess gefa út bækur og vonaði að það vekti ekki of mikla athygli.

Nú sit ég hér í eldhúsi í Danmörku, langt fjarri heimabyggð og átta bókaforlögum síðar. Og feimnin hefur að mestu elst af mér. Ég rifja upp í huganum þessi fyrstu skref í bókaútgáfu. Ég man að ég var alltaf skelfingu lostinn – og það er vægt til orða tekið – þegar ég hefði gefið út bók. Ég þorði alls ekki að opna bækurnar af ótta við að uppgötva einhver stórslys í prentuninni, það hefði gert út af við mig og útgáfuna. Allt var gert af vanefnum, ég átti ekki bót fyrir rassinn á mér. Þetta unga fólk í viðtalinu við Kolbrúnu er stolt af fyrstu bókinni sinni; þau halda henni á lofti fyrir ljósmyndarann og segja hreykin frá tilurð útgáfunnar.

Það rignir í dag og ég hef ákveðið vinnuskammt dagsins. Skrifstofufélagi minn er farinn til Bankok til að hitta þar samstarfsmann sinn í skipaflutningunum og hann verður þarna í austrinu í tvær vikur. Ég er því einráður á skrifstofunni í dag þegar ég kem þangað á eftir.

ps. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég vaknaði snemma í morgun var rithöfundurinn Sigurjón B. (Sjón). Það var ansi sterk mynd af honum sem leitaði á mig. Ætli hann eigi eitthvað vantalað við mig? Kannski mun hann standa við dyrnar hjá mér og knýja á. Ég mun heyra raust hans og ljúka upp dyrunum. Hann mun koma inn og neyta kvöldverðar, ég með honum og hann með mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.