Ég var snemma á ferðinni í morgun, kominn á stjá áður en börnin koma út til að fara í skólann. Ég var því nánast einn á ferð eftir götum bæjarins. Það hafði rignt í nótt og víða pollar á gangstéttum en ég lét það ekki á mig fá. Ég gekk hratt áfram, sveigði framhjá dýpstu pollunum, því ég hafði hugsað mér að vera kominn í gang með verkefni dagsins ekki síðar en korter í átta.
Ég hafði tekið lyklana að skrifstofunni upp úr jakkavasanum, ég hafði sett lykilinn í skrána á skrifstofudyrunum, ég átti bara eftir að snúa lyklinum í hálfhring og ganga inn þegar mér snerist skyndilega hugur. Það kom satt að segja flatt upp á mig – manninn sem þó tók ákvörðunina – að ég hætti við að ganga inn og hefja störf. En ég gerði það samt, tók lykilinn aftur úr skránni, setti hann aftur niður í jakkavasann og arkaði aftur af stað. Ég hélt áfram göngu minni – ég sneri ekki við – heldur hélt áfram för í sömu göngustefnu og áður. Gömlu hliðartöskuna, sem er nokkuð þung, hafði ég enn yfir öxlina og í henni var bæði tölvan mín, iPadinn minn og þær bækur sem ég er að lesa þessa dagana. (Auk þess er tyggjó, tannstönglar, gömul nafnspjöld, erlend smámynt, lyklakippa, hárteygjur, bæklingar um hljóðveggi, reikningar, kvittanir, sennilega 8 pennar, eldspýtustokkur, hleðslusnúra fyrir iPhone, varagleraugu, gamalt gleraugnahulstur …)
Ég gekk niður á Strandvejen, sem liggur bara fimmtíu metra frá skrifstofunni, og áfram í átt til kirkjunnar – mér hafði svo sem ekki dottið í hug að fara inn í kirkjuna – í gegnum kirkjugarðinn með öllu dána fólkinu og inn í skóginn. Ég hafði ekki gengið lengi eftir skógarstígunum, sem var hálfgert drullusvað eftir rigningarnar, þegar ég tók eftir að einhver hafði fest myndaramma á tré rétt við göngustíginn. Ég var einn í skóginum, eða ég varð ekki var við mannaferðir. Ramminn, sem var gullhúðaður og af sömu tegund og margar fjölskyldumyndir eru settar í, vakti auðvitað forvitni mína. Ég gekk nær og sá að á bak við glerið var blaðúrklippa – eða svo ályktaði ég útfrá hversu grófkornótt myndin í rammanum var – sem sýndi blind hjón taka fagnandi á móti syni sínum, sem líka var blindur, og faðirinn bítur soninn í kinnina.
Ég stóð lengi og virti ljósmyndina í rammanum fyrir mér. Hver hafði fundið upp á því að hengja myndaramma á tré úti í skógi? Og af hverju var nákvæmlega þessi myndin valin til að vera í rammanum? Ég leit í kringum mig svona eins og til að finna einhvern til að spyrja þessara tveggja spurninga.
ps. Mig dreymir íslendinga hverja nótt um þessar mundir. Í nótt voru það Jón Yngvi Jóhannsson og Sigþrúður Gunnarsdóttir. Þau fengu einu sinni húsið okkar á Søbækvej lánað. Kannski var það þess vegna sem mig dreymdi þau?