Espergærde. Eins og hindin þráir vatnslindir

Eiginlega má lýsa tilfinningunni sem vonbrigðum, sennilega er ekkert annað íslenskt orð sem lýsir betur því sem fór um kroppinn á mér þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt símanum mínum heima. Ég er nefnilega vanur að nota símann til að taka myndir – ég tala nánast aldrei í síma – og sérstaklega myndir af engu, bara myndir út í loftið sem ég birti svo hér í dagbókinni. Ég er feiminn við að birta myndir af fólki. Ég verð því að notast við gamla ljósmynd til að skreyta færslu dagsins; það kemur væntanlega ekki að sök. Það er snemma morguns, engin hreyfing, ekkert hljóð hérna á skrifstofunni. Verkamennirnir í byggunni handan vegarins eru annað hvort ekki mættir eða hafa hlaupið í skjól í rigningunni því þá er hvergi að sjá. Engin mannvera er í sjónmáli; ég gæti teoretískt séð verið einn í heiminum. Þegar ég stend upp eftir nokkra klukkutíma og geng út á götuna á leið minni í hádegismat get ég til dæmis gengið inn á slökkviliðsstöðina hér skammt frá til að athuga hvort slökkviliðsmennirnir séu nokkuð líka horfnir, hvort þeir séu ekki örugglega að störfum. Ef ekki, tek ég slökkviliðsbílinn þeirra og keyri heim í hádegismat.

Í gær þegar ég hafði óvænt stund aflögu, horfði ég á Óskar Árna Óskarsson, skáldið, í þættinum … ja hvað heitir nú þátturinn hans Egils Helgasonar í sjónvarpinu… ég man það ekki? Ég hafði gaman af því að hlusta á Óskar. Hann var í sínu besta stuði, tilgerðarlaus og heiðarlegur. Það er góður eiginleiki að geta verið tilgerðarlaus og heiðarlegur. Ég sat í sófanum heima hjá mér þegar ég horfði á þáttinn með honum Óskari Árna. Þetta innskot með skáldinu tók sennilega ekki nema fimm mínútur og að því loknu slökkti ég á iPadinum sem ég hafði notað til að geta séð Óskar tala um Reykjavíkurljóð sín. Það var kyrrt í kringum mig og allt í einu sóttu á mig þessi orð … „eins og hindin þráir vatnslindir …“

ps. Ég sá fyrirsögn um að fyrirtækið Gamma hafi verið sameinað Kviku; ekki veit ég almennilega á hvaða vettvangi þessi fyrirtæki starfa en sú undarlega hugsun flaug í gegnum höfuð mér að enn fækkaði leikmönnunum á keppnisvelli bókmenntanna.

pps. Mig dreymir íslendinga þessa dagana. Í nótt voru Halldór Guðmundsson fyrrum útgefandi og Bergsveinn Birgisson viðfangsefni drauma minna. Þeir deildu um hvor ætti að sitja í framsæti leigubíls sem einhver hafði pantað fyrir þá til að þeir gætu komist kappleik milli Molde og Strömsgodset sem haldinn var til heiðurs Ole Gunnar Solskjær.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.