Espergærde. Menn réttlætis og gæsku

Ég tala við sjálfan mig. Afmælismorgunn. Sus á afmæli í dag og eins og önnur afmælisbörn þráir hún að dagurinn verði á einhvern hátt sérstakur. Það skil ég. Morgunborðið var hátíðlegt, afmælisgjafir og afmælispönnukökur með rjóma og jarðaberjum. Og kertaljós.

Í gær keypti ég blóm til að gera daginn hátíðlegri. Afmælisgjöfin er á leiðinni. Tollurinn stoppaði gjöfina á leið til Danmerkur svo henni seinkaði um einn dag. Afmælisbarnið var ánægt.

Í gær lokaði ég facebook-svæðinu mínu, eða hvað maður nú kallar facebook-profil. Það eru svo sem engar fréttir, ég nota ekki facebook til neins, skoða facebook sjaldan og ef ég álpast til að opna svæðið ofbýður mér illskan og hatrið þar inni. Ég hugsa stundum að þarna sé sorptunna mannlegra hugsana.

Auðvitað hefði ég átt að vera fyrir löngu búinn að stimpla mig út, ég hef bara ekki haft hugsun á því; ekki fyrr en í gær þegar mér sveið undan illmælgninni og virðingarleysinu sem menn ástunda þar. Ég var vakinn af doða mínum þegar ég rakst á einhverja umræðu sem Hallgrímur Helgason, bókmenntaverðlaunahafi, setti í gang, að ég held, um persónu, skoðanir og gjörðir Styrmis Gunnarssonar sem einu sinni var ritstjóri Morgunblaðsins. Þar fannst mér bæði bókmenntaverðlaunahafinn og mannvinurinn Gunnar Smári Egilsson fara fram úr sjálfum sér í illgjarnri orðanotkun gagnvart pólitískum andstæðingi.

Kannski er Styrmir Gunnarsson ekkert skárri sjálfur á facebook, það þekki ég ekki. Ég skil vel að menn séu á öndverðum meiði, hafi ólíkar skoðanir, en ég skil ekki að menn þurfi að ata andstæðinga sína í skoðunum skít og óþverra. Og þar er facebook gott verkfæri.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.